Umfjöllun og viðtöl: KR – Leiknir R. 2-1 | Mögnuð endurkoma KR og Evrópuvonin lifir enn

Árni Konráð Árnason skrifar
Hetja KR í kvöld.
Hetja KR í kvöld. vísir/bára

Aðstæður voru með betra móti þegar KR tók á móti Leikni Reykjavík á Meistaravöllum í dag í 19. Umferð Pepsi Max deildarinnar þar sem bræðurnir Arnór Sveinn Aðalsteinsson og Bjarki Aðalsteinsson mættust. Lítill vindur og létt rigning, alveg hreint frábærar aðstæður til þess að iðka knattspyrnu í dag. KRingar sigruðu leikinn 2-1 og er nú einu stigi á eftir Valsmönnum. Það er því enn von um Evrópusæti í Vesturbænum.

KRingar sóttu meira allan leikinn og voru meira með boltann. Leiknismenn fengu þó sín færi og það var á 2. mínútu sem að Árni Elvar átti skot að marki KRinga, Beitir gerði þó vel í marki KRinga og varði.

Á 11. mínútu barst fyrirgjöf inn í teig Leiknismanna, þar stökk Kjartan Henry Finnbogason hæst og átti skalla um 2 metrum frá markinu. Hann náði litlum krafti í skallann og stýrði honum beint á Guy Smit sem að greip boltann.

Það var síðan Manga sem að gerði vel í að komast einn í gegn á 19. mínútu, skot hans lágt og fast í nærhorn en Beitir þurfti að hafa sig allan við að verja skotið í horn.

Besta færi fyrri hálfleiks fékk Ægir Jarl á 30. mínútu eftir frábæran undirbúning Stefáns Árna. Stefán lék á 3 Leiknismenn áður en að hann kom boltanum á Ægir sem var á milli markteigs og vítapunkts. Umkringdur Leiknismönnum náði Ægir þó að tækla boltann í átt að markinu en Guy Smit vel staðsettur.

Markalaust var þó í fyrri hálfleik þrátt fyrir fullt af góðum færum.

Leiknismenn byrjuðu seinni hálfleik betur en þann fyrri og sóttu aðeins hærra. Þeir voru ansi nálægt því að komast yfir á 57. Mínútu þegar að Hjalti Sigurðsson átti fast skot að marki KRinga. Beitir varði boltann út í teig og þar var Daníel Finns mættur að fylgja á eftir. Aftur varði Beitir og náði að þessu sinni að verja hann í horn, KRingar stálheppnir að hafa ekki lent undir.

Leiknismenn komust yfir á 66. mínútu. Daði Bærings átti frábæra sendingu inn fyrir vörn KRinga á Daníel Finns. Daníel setti boltann, innanfótar, alveg út við fjærstöng, 0-1 fyrir Leikni.

KRingar voru ekki lengi að svara fyrir þetta en þar var á ferðinni Kristinn Jónsson sem að hafði komið inn á 7. mínútum áður eða á 64. mínútu. Fyrirgjöf barst inn í teig á Atla Sigurjónsson sem að skallaði boltann í teiginn, þar var Ægir Jarl og Bjarki í baráttu um boltann en boltinn skoppaði til Kristins sem að setti boltann þéttingsfast undir síðu Guy Smit í markinu, 1-1.

Á 83. mínútu var Theodór Elmar næstum því búinn að tryggja þrjú stig fyrir KRinga þegar að hann átti skot á mark Leiknismanna. Theodór keyrði upp völlinn af einsdæmum og átti skot á markið, skotið ekkert frábært en völlurinn blautur og Guy Smit missti boltann úr höndum sér. Leiknismenn náðu þó að bægja hættunni frá.

Henrik Emil átti frábært skot langt fyrir utan teig á mark KRinga. Skotið var fast og hnitmiðað og þurfti Beitir að henda í svokallaða sjónvarpsmarkvörslu til þess að verja.

Kristinn Jónsson var aftur á ferðinni á 87. mínútu þegar að Óskar Örn skallaði boltann á markteig þar sem að Kjartan Henry var með Brynjar Hlöðversson í bakinu. Kjartan lagði boltann út í teig og aftur var það Kristinn Jónsson sem að setti boltann í markið, keimlíkt því sem að hann hafði skorað áður í leiknum, 2-1 fyrir KR.

Fleiri urðu mörkin þó ekki og Kristinn Jónsson, hetja KRinga í dag, tryggir þeim 3 stig og heldur lífi í Evrópudraumi Vesturbæinga.

Af hverju vann KR?

Þeir sóttu meira bróðurpartinn af leiknum en voru ekki að ná að klára færin sín. Þeir skora svo tvö keimlík mörk þar sem að boltinn fer út í teig og Kristinn gerir vel í að slútta. Mjög svo svekkjandi tap fyrir Leiknismenn en þeir lærðu ekki af mistökum sínum og Kristinn var óvaldaður út í teig í tvígang.

Hverjir stóðu upp úr?

Kristinn Jónsson átti frábæra innkomu í dag. Skoraði bæði mörk KRinga og var duglegur að hlaupa upp og niður kantinn.

Þá átti Ægir Jarl frábæran leik, var vinnusamur og skapandi.

Beitir átti frábærar vörslur í leiknum.

Leiknismenn í heild sinni voru skipulagðir og unnu vel saman, þeir vörðust vel og beittu öflugum skyndisóknum. Leikkerfi sem að virtist ætla að virka á KRinga.

Hvað gekk illa?

Leiknismenn voru skipulagðir og þeir vörðust vel, beittu skyndisóknum en einbeitingarleysið í báðum mörkum KRinga skilar þeim engu stigi í dag.

Vörn KRinga hefur staðið sig betur en í dag. Þegar að Leiknismenn sóttu að þá áttu þeir allt of auðvelt með að opna KRinga.

Hvað gerist næst?

KR fer til Keflavíkur eftir landsleikjahléið og mætir þar Keflavík 11. september.

Leiknir fer upp á Skaga 11. september og mætir ÍA. Báðir leikir verða spilaðir kl 14:00.

Rúnar Kristinsson: Hann gerir þetta oft á æfingum þannig að það var gaman að sjá þetta gerast í leik líka

„Frábær fótboltaleikur, ofboðslega opinn og skemmtilegur, mikið um færi og flottur fótbolti. Tvö lið sem að vildu vinna leikinn og bauð upp á mikla skemmtun, bara ánægður með þrjú stig“.

Evrópudraumurinn lifir enn hjá KRingum aðspurður hafi Rúnar þetta að segja

„Já, við erum búnir að vera í allt sumar að reyna elta og erum ennþá að því þannig að hver einasti leikur skiptir og máli en við erum búnir að sýna það undanfarið, búnir að vinna þrjá leiki í röð sem að er jákvætt. Strákarnir eru að leggja á sig mikla vinnu við að reyna að gera sitt besta og ná í sem flest stig og auka möguleikana að nálgast þessi efstu lið. Við erum sáttir við þessi stig í dag, frábær leikur eins og ég sagði og mikilvæg stig fyrir okkur í þessari baráttu“ sagði Rúnar.

Landsleikjahlé er framundan og spilar liðið næsta leik sinn 11. september.

„Nú fáum við kærkomið frí, það er búið að vera erfitt að vera í sóttkví í 5-6 daga og geta ekki æft og spila svo tvo leiki á fimm dögum. Maður sá það á liðinu í dag að menn voru þreyttur þegar að leið á síðari hálfleikinn en samt höfðum við orku til þess að klára þetta“.

Kristinn Jónsson átti frábæra innkomu í dag

„Kristinn var frábær, ofboðslega gaman að sjá hann koma inn á. Hann er auðvitað okkar fyrsti bakvörður og hefur verið. Grétar er búinn að spila þessa stöðu síðustu tvo leiki og Grétar var orðinn stífur í hálfleik. Við vissum að við þyrftum að setja Kristinn inn á og hann er allt öðruvísi bakvörður en Leiknismenn voru búnir að mæta í þessari 60 mínútur þangað til að Kristinn kemur inn á. Hann var bara mættur inn í vítateiginn í tvígang og kláraði bæði færin sín nokkuð vel. Hann er lunkinn fyrir framan markið og þegar að hann kemst í þessa stöðu að þá skorar hann oft. Hann gerir þetta oft á æfingum þannig að það var gaman að sjá þetta gerast í leik líka. Hann hefur kannski ekki verið frægur fyrir að skora mikið en hann skorar alltaf eitt, tvö á ári og þetta var ánægjulegt og gaman fyrir hann“.

Sigurður Heiðar Höskuldsson: Þrusu leikur

„Ég var virkilega ánægður með hvernig við responduðum frá tveimur síðustu leikjum. Við vorum miklu hugaðri á boltanum, hugaðri í varnarleiknum og vildum aðeins gíra þetta upp hjá okkur. Virkilega sáttur, sérstaklega með seinni hálfleikinn, hvernig við vorum svona 50-50. Það batnaði mikið í seinni hálfleik og úr varð þrusu leikur“ sagði Sigurður.

Leiknir hefur enn ekki unnið útileik í sumar sem verður að teljast afleit tölfræði. Aðspurður sagði Sigurður að hin liðin skora fleiri mörk en þeir á útivelli og hlær. Hann vill þó meina að frammistaðan í dag hefðu alveg getað skilað einhverjum stigum og að það hafi verið þannig í fullt af leikjum. Þó svo að Leiknir sé ekki í harðri fallbaráttu að þá er það staðreynd að helmingur leikja Leiknis fer fram á útivöllum og að liðið verði að sækja 3 stig þar líkt og á heimavelli.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira