Erlent

Fundu lík þúsunda fórnarlamba Stalíns í Úkraínu

Kjartan Kjartansson skrifar
Jósef Stalín er einn alræmdasti harðstjóri mannkynssögunnar. Þúsundir og þúsundir ofan voru myrtar í stjórnartíð hans í Úkraínu einni saman.
Jósef Stalín er einn alræmdasti harðstjóri mannkynssögunnar. Þúsundir og þúsundir ofan voru myrtar í stjórnartíð hans í Úkraínu einni saman. Vísir/EPA

Líkamsleifar allt frá fimm til átta þúsund manns fundust í 29 fjölgagröfum á framkvæmdasvæði í borginni Odessu í sunnanverðri Úkraínu. Talið er að fólkið hafi verið fórnarlömb sovésku leynilögreglunnar í tíð alræðisherrans Jósefs Stalín.

Rannsakendur telja að grafirnar séu frá seinni hluta fjórða áratugs síðustu aldar. Grafirnar fundust við undirbúning framkvæmda við stækkun flugvallar í borginni, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.

Hundruð þúsunda Úkraínumanna eru taldar hafa verið drepnar í stjórnartíð Stalíns. Samkvæmt upplýsingum stofnunar sem varðveitir heimildir um fórnarlömb pólitískra ofsókna í Úkraínu dæmdi sovéska leynilögreglan um 8.600 manns til dauða í Odessu frá 1938 til 1941. Ómögulegt sé þó að bera kennsl á líkin þar sem gögn um fórnarlömbin séu geymd í Rússlandi.

Talið er að grafirnar sem nú eru komnar í ljós séu einhverjar stærstu fjöldagrafir sem fundist hafa í Úkraínu. Uppgreftri á svæðinu er enn ekki lokið og því gætu enn fleiri líkamsleifar komið í leitirnar.

Úkraínskir sagnfræðingar hafa skotið á að fleiri en 200.000 pólitískir fangar sem voru teknir af lífi kunni að vera grafnir í Bykivnia-skógi utan við höfuðborgina Kænugarð.

Þá eru ótaldar þær milljónir Úkraínumanna sem eru taldar hafa látíð lífið í sárri hungursneyð í tíð Stalíns frá 1932 til 1933. Margir Úkraínumenn líta á hungursneyðina sem vísvitandi þjóðarmorð Stalíns en því hafna rússnesk stjórnvöld.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×