Erlent

Stöðva notkun bóluefnis Moderna eftir að agnir fundust í lyfjaglösum

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Um 40 prósent japönsku þjóðarinnar eru fullbólusett.
Um 40 prósent japönsku þjóðarinnar eru fullbólusett. epa/Rodrigo Reyes Marin

Heilbrigðisyfirvöld í Japan og bóluefnaframleiðandinn Moderna hafa ákveðið að bíða með notkun 1,6 milljón bóluefnaskammta eftir að agnir fundust í nokkrum skömmtum af 560 þúsund skammta framleiðslulotu.

Að sögn forsvarsmanna Takeda Pharmaceutical, sem selur og dreifir bóluefninu í Japan, var ákvörðunin tekin til að sýna ítrustu aðgát. Þeir segja líklega um að ræða vandamál við framleiðslu bóluefnisins á Spáni en hafa ekki gefið nánari útskýringu.

Þá er ekki vitað hvers konar agnir um ræðir.

Samkvæmt dagblaðinu Japan Times varð mengunarinnar vart á að minnsta kosti sjö bólusetningarmiðstöðvum, í að minnsta kosti 39 glösum.

Heilbrigðisráðuneyti Japan hefur birt númerin á umræddum framleiðslulotum til að fólk sem hefur þegar verið bólusett með bóluefninu getur athugað hvort það fékk skammt úr hinum menguðu glösum.

Kórónuveirufaraldurinn hefur verið í vexti í landinu en um 40 prósent þjóðarinnar eru fullbólusett. Flestir hafa verið bólusettir með bóluefnunum frá Pfizer og AstraZeneca en Japanir hófu að nota bóluefnið frá Moderna í maí.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×