Fótbolti

Lið frá Molda­víu í fyrsta skipti í riðla­keppni Meistara­deildar Evrópu

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Moldóvska liðið Sheriff Tiraspor sló Valsmenn úr forkeppni Evrópudeildarinnar árið 2018.
Moldóvska liðið Sheriff Tiraspor sló Valsmenn úr forkeppni Evrópudeildarinnar árið 2018. Vísir/Daníel

Sheriff Tiraspor varð í gær fyrsta moldóvska liðið til að vinna sér inn sæti í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu eftir samanlagðan 3-0 sigur gegn króatíska liðinu Dinamo Zagreb sem sló Valsmenn úr leik á dögunum.

Valsarar ættu að kannast við liðið Sheriff Tiraspor, en árið 2018 mættust þessi tvö lið í forkeppni Evrópudeildarinnar. Sheriff Tiraspor vann fyrri leikinn 1-0 í Moldavíu, en Valsmenn höfðu betur á Hlíðarenda, 2-1. Valsmenn féllu þó úr leik á færri mörkum skoruðum á útivelli, reglu sem er ekki lengur í gildi.

Moldóvska liðið vann fyrri leikinn gegn Dinamo Zagreb mjög óvænt 3-0, og markalaust jafntefli í síðari leiknum tryggði þeim sæti í riðlakeppni Meistaradeildarinnar.

Tveir aðrir leikir fóru fram í gærkvöldi þar sem að seinustu sætin í riðlakeppninni voru í boði.

Danska liðið Brøndby féll úr leik gegn austurríska liðinu Salzburg eftir samanlagt 4-2 tap og Shakhtar Donetsk komst áfram gegn franska liðinu AS Monaco þar sem að ótrúlegt sjálfsmark í framlengingu tryggði úkraínska liðinu áfram.

Þá hafa öll 32 sæti riðlakeppni Meistaradeildarinnar gengið út, en Evrópuævintýri Brøndby, Dinamo Zagreb og Monaco er þó ekki lokið, því þau fara í riðlakeppni Evrópudeildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×