Erlent

Lög­reglu­maðurinn sem banaði inn­rásar­konu stígur fram

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Myndin er tekin í byrjun janúar þegar æstur múgur réðist inn í bandaríska þinghúsið.
Myndin er tekin í byrjun janúar þegar æstur múgur réðist inn í bandaríska þinghúsið. Getty/Brent Stirton

Lögreglumaðurinn sem skaut konu, sem tók þátt í innrásinni í bandaríska þinghúsið, til bana mun á morgun stíga fram og segja sögu sína í sjónvarpsviðtali. Fyrst þá verður nafn lögreglumannsins þekkt en aðeins tveir dagar eru liðnir frá því að tilkynnt var að lögreglumaðurinn muni ekki sæta viðurlögum fyrir manndrápið.

Konan sem var skotin til bana hét Ashli Babbit, var 35 ára gamall Kaliforníubúi og hafði verið í flugher Bandaríkjanna í um fjórtán ár. Hún var ötull stuðningsmaður Donalds Trumps, fyrrverandi Bandaríkjaforseta, og var skotin þegar hún og aðrir stuðningsmenn hans brutu sér leið inn í þinghúsið til að stöðva staðfestingum úrslita forsetakosningnanna í nóvember.

Babbit var skotin þegar hún og aðrir voru að reyna að brjóta sér leið inn í sal þar sem vopnaðir lögregluþjónar höfðu lokað að sér. Hún var skotin af lögreglumanninum í vinstri öxlina þegar hún reyndi að troða sér í gegn um gat á rúðu, sem var á hurð salarins. Hún var flutt á sjúkrahús stuttu síðar og var þar úrskurðuð látin.

Frá andláti hennar hefur Babbit orðið eins konar píslarvottur skoðanabræðra hennar á hægri væng bandarískra stjórnvalda. Stuðningsmenn Trumps hafa til að mynda safnað þúsundum Bandaríkjadala í gegn um safnanir á Internetinu og forsetinn fyrrverandi hefur sjálfur rætt við foreldra hennar.

Fyrr í sumar hélt Trump því til að mynda fram að Babbit hafi verið „myrt af einhverjum sem hefði aldrei átt að taka í gikkinn á byssunni sinni“.

Fjölskylda Babbit hefur jafnframt heitið því að hún muni sækja lögregluna í Washington til saka og sömuleiðis lögreglumanninn sem skaut hana. Þá hefur fjölskylda hennar krafið stjórnvöld í Washington um að birta upplýsingar um það hvert nafn lögreglumannsins er.

Fjölskyldan þarf þó ekki að bíða þess mikið lengur að fá að vita nafn mannsins, en hann mun koma fram í viðtalinu klukkan 18:30 að staðartíma á morgun á sjónvarpsstöð NBC.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×