Fótbolti

Stuðningsmenn Chelsea munu minnast grínistans vinsæla

Valur Páll Eiríksson skrifar
Sean Lock var mikill stuðningsmaður Chelsea og átti ársmiða á bæði Stamford Bridge og útileiki liðsins.
Sean Lock var mikill stuðningsmaður Chelsea og átti ársmiða á bæði Stamford Bridge og útileiki liðsins. Jo Hale/Getty Images

Stuðningsmenn enska knattspyrnuliðsins Chelsea munu minnast grínistans Sean Lock á næsta heimaleik liðsins við Aston Villa. Lock lést nýverið eftir baráttu við krabbamein en hann var ársmiðahafi á Stamford Bridge.

Lock var einkar vinsæll grínisti á Bretlandi og víðar en hann var valinn besti uppistandarinn á Englandi árið 2000. Hann hefur verið fastagestur á skjám breskra landsmanna um árabil í margskonar spurninga- og grínþáttum.

Hann var meðal annars í þættinum 8 Out of 10 Cats frá 2005 til 2015 og 8 Out of 10 Cats Does Countdown frá 2012 til ársins í ár. Þá var hann reglulega gestur í spurningaþáttunum QI.

Hann lést aðeins 58 ára gamall eftir baráttu við krabbamein þann 16. ágúst síðastliðinn og kallaði grínistinn Omid Djalili, sem hefur reglulega unnið með Lock í gegnum tíðina, eftir því að hans yrði minnst af stuðningsmönnum Chelsea.

Djalili greinir frá því á Twitter-síðu sinni að vel hafi verið tekið í uppástunguna enda var Lock mikill stuðningsmaður þeirra bláklæddu og átti ársmiða á Stamford Bridge.

Á næsta heimaleik Chelsea, við Aston Villa þann 11. september næst komandi munu stuðningsmenn liðsins klappa í eina mínútu á 58. mínútu sem vísar í aldur Locks við andlát hans.

Chelsea hefur byrjað vel á leiktíðinni og er með fullt hús stiga eftir tvo leiki. Liðið sækir Liverpool heim á Anfield um næstu helgi en Liverpool er sömuleiðis með sex stig eftir fyrstu tvo leikina.


Tengdar fréttir

Grínistinn Sean Lock er látinn

Breski grínistinn Sean Lock er látinn, 58 ára að aldri. Umboðsmaður Locks staðfestir í samtali við BBC að hann hafi látist af völdum krabbameins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×