Innlent

Verk­föll eru það síðasta sem ferða­þjónustan þarf á að halda

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Birgir Jónsson, forstjóri Play, segir stöðuna í flugstöðinni nógu kaótíska fyrir.
Birgir Jónsson, forstjóri Play, segir stöðuna í flugstöðinni nógu kaótíska fyrir. Vísir/sigurjón

Verk­föll hjá flug­um­ferðar­stjórum væru það síðasta sem ferða­þjónusta og flug­iðnaður landsins þarf á að halda að sögn Birgis Jóns­sonar, for­stjóra PLAY. Fé­lag ís­lenskra flug­um­ferðar­stjóra (FÍF) á­kveður í dag hvort ráðist verði í verk­falls­að­gerðir á þriðju­daginn í næstu viku og skoða hvort greiða eigi atkvæði um frekari verk­falls­að­gerðir á næstunni.

Fé­lagið fundar með Isavia hjá ríkis­sátta­semjara í dag. Búist er við að sá fundur geti staðið langt fram á kvöld en FÍF hefur til klukkan fimm í nótt til að boða verk­fallið. Deilan strandar á vinnu­tíma flug­um­ferðar­stjóra.

„Ég held að við verðum að hafa traust á þessum aðilum að lenda málinu því þetta er náttúru­lega það síðasta sem ferða­þjónustan og flug­iðnaðurinn og í raun og veru bara landið þarf í þessu Co­vid á­standi að það fari að bætast verk­föll ofan í kaupið,“ segir Birgir í sam­tali við Vísi.

Hefði á­hrif á morgun­flug á þriðju­degi

Ef verk­fallið verður boðað stendur það á milli klukkan fimm og tíu á þriðju­dags­morgun í næstu viku. Það hefði því á­hrif á allt morgun­flug.

„Það fellur í rauninni á dag sem hefur ekki stór á­hrif á okkur og okkar á­ætlanir,“ segir Birgir. „Við erum með brott­farir seinna á þessum degi en á þessum verk­falls­tíma sem vinnu­stöðvunin tekur til.

Það sem þetta gerir fyrst og fremst er að skapa enn þá meiri ó­vissu um ferða­lög og það eru ó­skýrar reglur nú þegar. Það er kaos í flug­stöðinni núna á hverjum einasta degi þannig þetta er alls ekki það sem við þurfum.“

Skoða frekari verk­falls­að­gerðir

Arnar Hjálms­son, for­maður FÍF, sagði við Vísi í gær­kvöldi að fé­lagið myndi funda með trúnaðar­ráði í dag til að skoða mögu­leikann á því að láta fé­lags­menn greiða atkvæði um frekari verk­falls­að­gerðir á næstunni.

„Ég held að allir hljóti að hafa á­hyggjur af því. Því eins og ég segi þá er þetta það síðasta sem við þurfum núna og ég held að samnings­aðilar verði að taka það inn í myndina að þetta er svo miklu stærra mál en þessi til­tekna deila því þetta getur haft mikla röskun á allri ferða­þjónustu og öllu flugi til og frá landinu, sem er auð­vitað bara hið versta mál,“ segir Birgir.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×