Þar segir þó að svörum sé forgangsraðað og að ef brátt sé að koma niðurstöðum til skila sé það gert án tafar. Það sem helst veldur töfum er úrvinnslan hérlendis en samkvæmt svörum heilsugæslunnar taka rannsóknirnar í Danmörku jafnan um viku.
Búið er að upplýsa stjórnendur Hvidovre-sjúkrahússins um fyrirætlan íslenskra stjórnvalda að flytja rannsóknirnar aftur heim um áramótin. Samningurinn við sjúkrahúsið er með þriggja mánaða uppsagnarfrest.
Sigríður Dóra Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri lækninga hjá Heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu, leiðir vinnuna við að færa rannsóknirnar til Landspítala.
Vísir spurði að því hvers vegna HPV rannsóknirnar væru ekki fluttar á Landspítalann án tafar til að stytta biðtímann eftir niðurstöðum, þar sem forsvarsmenn spítalans hafa sagst geta veitt svör þremur dögum frá sýnatöku.
Samkvæmt svari heilsugæslunnar segir að það sé álit forsvarsmanna Landspítala að það sé óheppilegt að aðskilja rannsóknirar og réttara að flytja báðar í einu. Þetta rímar ekki við samtöl fréttastofu við einstaklinga innan Landspítalans, sem segja ekkert því til fyrirstöðu að hefja HPV rannsóknir þar án tafar. Það eina sem þurfi að gera áður sé að panta hvarfaefni í vélar spítalans.
Flutningur frumurannsókna krefst hins vegar meiri undirbúnings, þar sem finna þarf aðstöðu til að sinna rannsóknunum, tryggja til þess búnað og ráða starfsfólk.
Unnið er að nýrri skimunarskrá hjá Embætti landlæknis en þar til hún kemst í gagnið tekur vinnsla sýna allt að einum mánuði, samkvæmt svörum heilsugæslunnar.