Íslenski boltinn

Fótboltalið hringdi út fjórða hraustasta mann heims: „FC Stokkseyri þar til ég dey“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Björgvin Karl Guðmundsson er í virkri hvíld eftir heimsleikana og var alveg tilbúinn að spila einn fótboltaleik fyrir uppeldisfélagið sitt.
Björgvin Karl Guðmundsson er í virkri hvíld eftir heimsleikana og var alveg tilbúinn að spila einn fótboltaleik fyrir uppeldisfélagið sitt. Instagram/@bk_gudmundsson

Björgvin Karl Guðmundsson er nýkominn heim af heimsleikunum í CrossFit og eins og þeir sem fylgjast með honum á samfélagsmiðlum er að reyna að gera allt annað en að æfa.

Björgvin Karl stóð sig frábærlega á heimsleikunum og var aðeins hársbreidd frá verðlaunapallinum. Niðurstaðan er fjórði hraustasti CrossFit maður heims.

Undirbúningurinn fyrir heimsleikana tók allan hans tíma í marga mánuði og þessar vikur er mikilvægt fyrir okkar mann að ná að anda og safna orku fyrir næsta tímabil.

Björgvin Karl sagði því já þegar FC Stokkseyri hringdi í hann og bað hann um að spila með þeim í 4. deildinni um helgina.

„Þegar æskufélagið mitt þarf á mér að halda til að klæða mig í búninginn og takkaskóna þá er það einmitt sem ég geri,“ skrifaði Björgvin Karl Guðmundsson undir myndir frá þessum fótboltaleik í B-riðli fjórðu deildarinnar.

„Það er liðin dágóður tími síðan ég spilaði síðast fótbolta. Því miður töpuðum við leiknum 4-2 en ég naut þess að vera þarna og að spila í þessar 65 mínútur sem ég var á vellinum,“ skrifaði Björgvin Karl.

Stokkseyri mætti þarna Knattspyrnufélaginu Hlíðarenda á Stokkseyrarvelli og 50 manns sá langbesta CrossFit mann Íslands fyrr og síðar spreyta sig í fótbolta. Formið var alla vega ekki að flækjast fyrir honum.

„FC Stokkseyri þar til ég dey,“ skrifaði Björgvin Karl að lokum eins og sjá má hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×