Innlent

Sjúkra­tryggingar greiða fyrir heil­brigðis­þjónustu Ís­lendinga sem smitast er­lendis

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
María Heimisdóttir, forstjóri Sjúkratrygginga Íslands, segir að fjöldi fyrirspurna hafi borist stofnuninni um greiðsluþátttöku hennar vegna kostnaðar sem hlýst af heilbrigðisþjónustu tengdri Covid í útlöndum.
María Heimisdóttir, forstjóri Sjúkratrygginga Íslands, segir að fjöldi fyrirspurna hafi borist stofnuninni um greiðsluþátttöku hennar vegna kostnaðar sem hlýst af heilbrigðisþjónustu tengdri Covid í útlöndum. Vísir/Sigurjón

Sjúkratryggingar Íslands taka þátt í heilbrigðiskostnaði Íslendinga sem smitast af kórónuveirunni erlendis. Greiðsluþátttakan fer þó eftir þeim reglum sem gilda í hverju landi fyrir sig.

Fjöldi Íslendinga hefur ferðast út fyrir landssteinana í sumar en hvergi er fólk þó alveg öruggt fyrir veirunni. Íslendingar sem greinast smitaðir erlendis munu þó ekki þurfa að bera greiðslubyrgði vegna kostnaðar sem hlýst af smiti alveg einir, en Sjúkratryggingar taka þátt í kostnaði.

María Heimisdóttir, forstjóri Sjúkratrygginga Íslands, segir að kostnaðarþátttakan fari þó eftir reglum í hverju landi fyrir sig og lendi fólk í einangrun innan Evrópska efnahagssvæðisins njóti það sömu réttinda og þjónustu og hver annar íbúi landsins.

„Þá í rauninni fellurðu undir sjúkratryggingakerfi viðkomandi lands og nýtur bara sömu trygginga og almenningur í því landi nýtur,“ segir María.

Reglurnar eru þó aðeins öðruvísi fari fólk í einangrun utan EES.

„Þá greiðum við, Sjúkratryggingar Íslands, fyrir þjónustuna það sem við hefðum greitt ef hún hefði verið veitt hér á Íslandi.“

Sjúkratryggingar taka þátt í þessum kostnaði þar sem hann flokkast sem heilbrigðisþjónusta. Annað gildir um covid-próf sem ferðalangar þurfa að taka fyrir brottför og við komuna til landsins. María segir að stofnuninni hafi borist fjöldi fyrirspurna um greiðsluþátttöku stofnunarinnar vegna kórónuveirunnar.

„Já, það er töluvert hringt, bæði út af covid-prófunum og svo vill fólk gjarnan fá almennar upplýsingar um greiðsluþátttöku ef það kæmi eitthvað upp á við þessar einkennilegu aðstæður sem nú ríkja,“ segir María.

Hvernig er með kostnað vegna covid-prófa þegar fólk er á leiðinni til útlanda?

„Já, nú eru covid-próf vegna ferðalaga, þau eru ekki skilgreind sem heilbrigðisþjónusta hérna á Íslandi þannig að við tökum ekki þátt í kostnaði vegna þess.“Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.