Innlent

„Maður skynjar ó­sam­stöðu milli ráðu­neytis og al­manna­varna“

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Birgir Jónsson, forstjóri Play, segir ferðamenn finna fyrir mikilli óvissu vegna aðgerða á landamærum. 
Birgir Jónsson, forstjóri Play, segir ferðamenn finna fyrir mikilli óvissu vegna aðgerða á landamærum.  Vísir/Vilhelm

Fjöldi ferðamanna hefur leitað til flugfélagsins Play undanfarið með fyrirspurnir um reglur á landamærum. Forstjóri Play segir að mikil óvissa ríki um aðgerðirnar og gagnrýnir hann ósamræmi á landamærum.

„Það ber á því að það er ákveðið kaos í flugstöðinni. Fólk er hreinlega að komast í gegn án þess að framvísa þessum prófum þannig að okkur finnst þetta skapa óþarfa ringulreið,“ segir Birgir Jónsson, forstjóri Play.

Mikil örtröð hefur verið í komusalnum í Leifstöð undanfarið og borið á hægagangi þar sem ferðamenn framvísa covid-vottorðum. Guðmundur Daði Rúnarsson, framkvæmdastjóri viðskipta og þróunar hjá ISAVIA segir ekkert í því hægt að gera.

„Kannski til að byrja, þá er þetta yfir mjög afmarkaðan tíma dagsins sem raðirnar eru að myndast þegar mikið af flugvélum eru að lenda á sama tíma og meðan ferlið og reglurnar eru eins og þær eru af hálfu sóttvarnayfirvalda er bara ofboðslega lítið hægt að gera. Það er búið að taka alla þá fermetra sem eru í boði,“ sagði Guðmundur Daði í Bítinu á Bylgjunni í morgun.

Birgir kallar eftir því að reglur verði gerðar skýrari og gagnrýnir að farþegum úr sitt hvorri áttinni sé blandað saman í komusal.

„Það gengur ekki að einhver farþegi sem er búinn að leggja í kostnað við að fara í tiltekin próf og framvísa þeim við byrðingu í flugvélina erlendis komi svo til Íslands og standi í hópi með þúsundum manna sem eru að koma með öðru flugfélagi sem er ekki búið að þurfa að framvísa þessum prófum.“

Hann segir bera á ósamstöðu í kerfinu. Óvissan geri ekkert nema skapa óreiðu og ósamstöðu.

„Það vantar að einhver taki boltann. Hver er í forsvari fyrir þetta? lögreglan á flugvellinum virðist ekki vita neitt, Isavia virðist ekki vita neitt. Maður skynjar einhverja ósamstöðu í kerfinu á milli ráðuneytis og almannavarna,“ segir Birgir.


Tengdar fréttir

„Það verður ekki mikið meira gert þegar öll þjóðin er orðin full­bólu­sett“

Mikill fjöldi ferðamanna, íslenskra og erlendra, fer í gegnum Keflavíkurflugvöll á degi hverjum. Vegna landamæraaðgerða hefur oft myndast örtröð á vellinum, og forsvarsmenn lögreglu í flugstöðinni bent á að húsnæðið bjóði ekki upp á meiri skilvirkni við afgreiðslu vottorða og annars sem þarf að sinna í tengslum við aðgerðirnar.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.