Alþjóðaólympíunefndin hefur staðfest að Artur Sjímak og Yury Maísevits hafi þegar yfirgefið Ólympíuþorpið. Þeir voru yfirþjálfarar spretthlauparans Krystsínu Tímanovskaju sem vakti alþjóðlega athygli fyrir tæpri viku síðan þegar hún neitaði að fara um borð í flugvél á leið til Hvíta-Rússlands með liðsfélögum sínum.
Tímanovskaja leitaði hælis í pólska sendiráðinu í Tókýó þar sem hún hefur fengið dvalarleyfi af mannúðarástæðum og er hún nú komin í öruggt skjól í Póllandi. Tímanovskaja hyggst sækja um pólitískt hæli í Póllandi.
Ástæða þess að Tímanovskaja neitaði að fara um borð í flugvélina var sú að þjálfararnir skyndilega tóku hana úr Ólympíuliði Hvíta-Rússlands eftir, að hennar sögn, hún gagnrýndi þá á samfélagsmiðlinum Telegram fyrir að ætla henni að keppa í boðhlaupi.
Beindi sjónum að versnandi ástandi í Hvíta-Rússlandi
Tímanovskaja fór á Ólympíuleikana til að keppa í spretthlaupi en var skyndilega skráð í boðhlaup, að henni óafvitandi, og segir hún ástæðuna þá að liðsmenn í boðhlaupsliðinu hafi vantað keppnisleyfi vegna þess að tilskilin lyfjapróf vantaði. Þjálfararnir hafa neitað því og segja hana hafa verið tekna úr liðinu að læknisráði vegna andlegrar heilsu hennar.
Málið er nú til rannsóknar hjá Alþjóðaólympíunefndinni en hefur beint sjónum heimsins aftur að heimalandi hennar. Mikill pólitískur óstöðugleiki hefur verið í Hvíta-Rússlandi undanfarið árið eftir að Alexander Lúkasjenka, forseti landsins, bar sigur úr bítum í forsetakosningum.
Margir telja að hann hafi beitt víðtæku kosningasvindli en þetta er sjötta kjörtímabilið sem hann situr við völd, eða frá árinu 1994. Síðan 9. ágúst í fyrra hefur mikil mótmælaalda riðið yfir landið vegna niðurstöðu kosninganna og fjöldi fólks hefur flúið.
Hafa skipað sérstaka rannsóknarnefnd
Í tilkynningu greindi Alþjóðaólympíunefndin frá því að aðgangspassar þjálfaranna tveggja hafi verið fjarlægðir „til öryggis… fyrir vellíðan íþróttamanna Ólympíunefndar Hvíta-Rússlands sem eru enn í Tókýó,“ sagði í tilkynningunni. Breska ríkisútvarpið greinir frá.
Alþjóðaólympíunefndin hefur kallað til sérstaklega rannsóknarnefnd til að skoða mál Tímanovskaju en báðir þjálfararnir munu fá tækifæri til að tala máli sínu fyrir nefndinni.
Forseti Alþjóðaólympíunefndarinnar Thomas Bach sagði á blaðamannafundi í morgun að nefndin væri ánægð að Tímanovskaja sé komin í öruggt skjól í Póllandi og sagði atvikið hafa verið hræðilegt.