Innlent

Samskipti stjórnenda við fjölmiðla verði áfram góð

Kjartan Kjartansson skrifar
Björn Rúnar Lúðvíksson, yfirlæknir ónæmisfræðideildar Landspítalans.
Björn Rúnar Lúðvíksson, yfirlæknir ónæmisfræðideildar Landspítalans. Vísir/Stöð 2

Yfirlæknir á ónæmisfræðideild Landspítalans reiknar með því að samskipti stjórnenda spítalans og fjölmiðla verði áfram góð þrátt fyrir mikið álag um þessar mundir. Stjórnendum spítalans hefur verið skipað að svara ekki fyrirspurnum fjölmiðla.

Deildarstjóri samskiptadeildar Landspítalans sendi á þriðja hundrað stjórnenda spítalans tölvupóst í gærkvöldi um að þeir ættu að beina öllum fyrirspurnum fjölmiðla til samskiptadeildarinnar. Stjórnendunum var meðal annars sagt að það væri góð regla að svara ekki beinum símtölum fjölmiðla og voru fjölmiðlamenn kallaðir „skrattakollar“.

Björn Rúnar Lúðvíksson, yfirlæknir á ónæmisfræðideild Landspítalans, sagði mikilvægt að hafa opna og góða umræðu þegar kemur að málið sem snýr að lífi og heilsu landsmanna og heilbrigðiskerfinu í viðtali í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld. Umræðan þurfi að vera óheft og óþvinguð.

Að hans mati hafi samskipti fjölmiðla við sérfræðinga spítalans verið góð til þessa. Eðlilegt sé að fjölmiðlar leiti til þeirra sem hafa mestu sérþekkinguna á málum.

„Ég á ekki von á öðru heldur en að við finnum einhverja góða lendingu í þessu þar sem að eðlileg samskipti halda áfram að eiga sér stað og opin,“ sagði Björn Rúnar en svaraði því ekki beint hvort hann óskaði eftir því að tilmæli samskiptadeildarinnar yrðu dregin til baka.

Í tölvupósti deildarstjóra samskiptadeildarinnar voru tilmælin réttlætt með því að stjórnendurnir þyrftu á hvíld að halda vegna mikils álags á spítalanum. Björn Rúnar sagði að álag hafi verið lengi á spítalanum, ekki aðeins nú í þessari bylgju kórónuveirufaraldursins. Hann telji að tilmælin um að stjórnendur sinni ekki fyrirspurnum fjölmiðla sjálfir séu líklega tilkomin vegna þeirrar erfiðu stöðu sem uppi er á spítalanum.

„Þetta eru erfiðir tímar sem við erum öll að ganga í gegnum og er að koma mismunandi illa niður á fólki. Þess vegna er það algert lykilatriði að þessi samskiptaleið sé opin og greið,“ sagði hann.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×