Erlent

Enn fleiri sjálfstæðum fjölmiðlum lokað í Rússlandi

Samúel Karl Ólason skrifar
MBKh Media er annar þeirra miðla sem lokað var á í gær. Á undanförnum mánuðum hafa yfirvöld í Rússlandi beitt sér gegn fjölmörgum sjálfstæðum miðlum.
MBKh Media er annar þeirra miðla sem lokað var á í gær. Á undanförnum mánuðum hafa yfirvöld í Rússlandi beitt sér gegn fjölmörgum sjálfstæðum miðlum. AP/Alexander Zemlianichenko

Tveimur rússneskum fjölmiðlum hefur verið lokað af yfirvöldum landsins. Þar er um að ræða fréttavefina Otrkytye Media og MBKh Media, auk þess sem hjálparsamtökunum Otkrytki hefur einnig verið lokað.

Forsvarsmenn fjölmiðlanna tilkynntu í gær að þeim yrði lokað í kjölfar þess að vefsíðum þeirra var lokað af ríkinu í gær vegna meintra tengsla þeirra við „óæskilega“ aðila. Það er skilgreining sem ríkið hefur ítrekað notað á undanförnum mánuðum til að loka sjálfstæðum fjölmiðlum í Rússlandi.

Frá þeirri ríkisstofnun sem heldur utan um rússneskar vefsíður hefur borist yfirlýsing um að vefjum miðlanna hafi verið lokað að beiðni ríkissaksóknara Rússlands, samkvæmt frétt Moscow Times. Sú beiðni hafi byggt á lögum um það að hvetja til öfgastarfsemi eða þátttöku í ólöglegum mótmælum.

Með því að skilgreina miðla og stofnanir sem óæskilegar geta meðlimir þeirra, starfsmenn og stuðningsmenn verið sóttir til saka. Fjölmiðlar sem hafa verið skilgreindir svo hafa misst allar fjárveitingar og vettvang til að koma fréttum á framfæri.

Miðlarnir báðir sem um ræðir og hjálparsamtökin Pravozashchita Otkrytki tengjast Mikhail Khodorkovsky, rússneskum auðjöfri sem fluttu til Lundúna eftir að hafa setið í fangelsi í Rússlandi í áratug. Hann hafði þá reynt að beita sér gegn ríkisstjórn Vladimírs Pútín, forseta Rússlands.

AP fréttaveitan segir nokkrar stofnanir sem tengist Khodorkovsky hafa verið skilgreindar sem óæskilegar að undanförnu.

Í tilkynningu frá Otkrytye Media segir að miðillinn hafi fengið styrk frá Khodorkovsky en hafi aldrei unnið með óæskilegum samtökum. Miðlinum yrði hins vegar lokað vegna þeirrar hættu sem starfsfólk væri í.

Sjá einnig: Rússneskur ritstjóri í fangelsi fyrir tíst

Sjálfstæðir fjölmiðlar, blaðamenn, stjórnarandstæðingar og mannréttindasinnar hafa verið undir miklum þrýstingi í Rússlandi í aðdraganda þingkosninga í næsta mánuði.

Nokkrir dagar eru síðan 49 vefsíðum sem tengjast Alexei Navalní var lokað í Rússlandi og yfirvöld þar skipuðu Twitter og Youtube að loka síðum Navalní og bandamanna hans.

Navalní er í fangelsi eins og frægt er, eftir að eitrað var fyrir honum með taugaeitrinu Novichok.

AP fréttaveitan sagði frá því í síðustu viku að rúmlega fjörutíu samtök og hópar hefðu verið skilgreindir sem óæskilegir. Þar á meðal fjölmiðlar, stjórnarandstæðingar og mannréttindasamtök.

Meðal annarra sjálfstæðra miðla sem yfirvöld í Rússlandi hafa beitt sér gegn eða lokað á undanförnum mánuðum eru Meduza, VTimes, Proekt og Radio Free Europe.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.