Erlent

Krefjast rannsóknar á notkun ráðherra á samskiptamiðlum

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
James Bethell er meðal þeirra ráðherra sem hafa gerst sekir um að nota einkapóstinn til að sinna opinberum erindagjörðum.
James Bethell er meðal þeirra ráðherra sem hafa gerst sekir um að nota einkapóstinn til að sinna opinberum erindagjörðum. Mynd/Breska þingið

Breski Verkamannaflokkurinn hefur kallað eftir rannsókn á notkun ráðherra á samskiptaforritum á borð við WhatsApp eftir að í ljós kom að undirráðherra í heilbrigðisráðuneytinu skipti um síma áður en rannsókn hófst á samskiptum hans.

James Bethell er meðal þeirra ráðherra sem eru til rannsóknar vegna grunsemda um misferli við úthlutun samninga vegna Covid-19 prófa og hlífðarfatnaðar fyrir heilbrigðisstarfsfólk. Þáttur Bethell snýst um 85 milljón punda samning við Abingdon Health vegna mótefnamælinga.

Þess er nú freistað að fá samskipti Bethell afhent frá farsímafyrirtækinu hans, eftir að í ljós kom að hann skipti um síma í byrjun árs. Á sama tíma og stjórnvöldum ber að varðveita öll samskipti og gögn hafa ráðherrar verið staðnir að því að nota einkapóst og ýmis samskiptaforrit til að eiga samskipti um opinber málefni, sem gagnrýnendur segja afar varhugavert.

Segja þeir samskipti um óformlegar boðleiðir leiða til ógegnsæis og geta valdið því að öll gögn skili sér ekki þegar óskað er eftir upplýsingum á grundvelli upplýsingalaga.

Bethell er einnig til rannsóknar fyrir að hafa notað einkapóstinn sinn til að sinna opinberum málum en sú rannsókn hófst eftir að í ljós kom að yfirmaður hans, fyrrverandi heilbrigðisráðherrann Matt Hancock, hafi gerst sekur um sömu háttsemi.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.