Fótbolti

Sendu formlega kvörtun vegna gyðingahaturs í garð formannsins

Valur Páll Eiríksson skrifar
Daniel Levy, stjórnarformaður Tottenham Hotspur.
Daniel Levy, stjórnarformaður Tottenham Hotspur. Clive Rose/Getty Images

Enska knattspyrnufélagið Tottenham Hotspur hefur sent formlega kvörtun útvarpsrásarinnar Talksport vegna ummæla manns sem hringdi inn í þátt á rásinni í gær. Sá sem hringdi inn beindi ummælum sínum að Daniel Levy, stjórnarformanni Tottenham.

Rætt var um málefni Tottenham í þætti gærkvöldsins, og sérstaklega mál Harry Kane. Kane hefur verið orðaður við brottför frá þeim hvítklæddu og mætti ekki úr sumarfríi sínu eftir helgina líkt og hann átti að gera.

Sá sem hringdi inn í þáttinn sagði þá við þáttastjórnendur: „Levy, hann er gyðingur, hann mun því ekki láta hann [Harry Kane] fara fyrir ekkert, er það?“.

Þáttastjórnendurnir, þeir Perry Groves og Jordan Jarrett-Bryan, hafa sætt mikilli gagnrýni fyrir að gera enga athugasemd við ummæli mannsins. Á streymi frá þættinum sást að hvorugum þeirra þótti mikið til ummælana koma, og reyndu þeir að færa samtalið í aðra átt.

Tottenham hefur nú lagt inn formlega kvörtun vegna þessa og sendi félagið frá sér yfirlýsingu í dag þar sem bæði ummælin og framganga Groves og Jarrett-Bryan er gagnrýnd.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×