Innlent

Allt farið vel fram í Vest­manna­eyjum um helgina

Elma Rut Valtýsdóttir skrifar
Varðstjóri lögreglunnar telur að um þúsund gestir séu í Vestmannaeyjum um helgina. Brekkusöngurinn fer fram í Herjólfsdal í kvöld en þó án áhorfenda.
Varðstjóri lögreglunnar telur að um þúsund gestir séu í Vestmannaeyjum um helgina. Brekkusöngurinn fer fram í Herjólfsdal í kvöld en þó án áhorfenda. Vísir/Vilhelm

Verslunarmannahelgin hefur farið afskaplega vel fram í Vestmannaeyjum. Varðstjóri lögreglunnar á svæðinu segir fólk almennt glatt og skemmtilegt.

Pétur Steingrímsson, varðstjóri lögreglunnar í Vestmannaeyjum segir helgina hafa verið ágæta hingað til. Eitthvað hafi verið um „fylleríseril“ eins og gengur og gerist þegar fólk er að skemmta sér.

Tilkynnt var um ein slagsmál niðri í bæ og einn var handtekinn fyrir akstur undir áhrifum fíkniefna.

Pétur segir þó að almennt hafi öll skemmtun farið vel fram um helgina. Hann segir engar kærur hafa borist um helgina og að ekkert „vont og ljótt“ hafi átt sér stað.

Hann segir að heimapartýin séu alls ekki eins mörg eins og talað hafi verið um. Einhver partý séu hér og þar um eyjuna og það séu í langflestum tilvikum heimamenn sem skemmta sér.

Eins og Vísir greindi frá í gær er afar fámennt á tjaldsvæðum í Vestmannaeyjum og dvelja um þrjátíu manns í sjálfum Herjólfsdal sem er aðeins brotabrot af því sem vant er um verslunarmannahelgi. Pétur telur að gestir eyjunnar séu ekki fleiri en þúsund.

Eins og kunnugt er var Þjóðhátíð í Eyjum blásin af vegna samkomutakmarkana en þar fer þó fram beint streymi frá brekkusöngnum í kvöld. Þar verða engir áhorfendur enda verður Herjólfsdal lokað á milli klukkan átta og tólf.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×