Enski boltinn

Carragher varar stuðningsmenn Liverpool við

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Van Dijk í leiknum afdrifaríka.
Van Dijk í leiknum afdrifaríka. vísir/getty

Liverpool goðsögnin Jamie Carragher segir stuðningsmenn félagsins ekki geta búist við því að Virgil van Dijk snúi til baka í vörn liðsins og smelli öllu í lás á einu augnabliki.

Hollenski varnarmaðurinn lék sinn fyrsta leik í langan tíma á dögunum þegar hann tók þátt í æfingaleik Liverpool gegn Herthu Berlin. 

Hann meiddist alvarlega á hné í leik gegn Everton í ensku úrvalsdeildinni á síðustu leiktíð og hafði fjarvera hans veruleg áhrif á gengi liðsins.

„Það þarf að fara varlega með hann og ég held að Jurgen Klopp muni gera það,“ segir Carragher.

„Ég held að við ættum ekki að hafa vonir um að Virgil van Dijk komi aftur inn í Liverpool liðið og það muni sjálfkrafa vinna ensku úrvalsdeildina í kjölfarið.“

Liverpool varð Englandsmeistari árið 2020og þótti van Dijk vera mikilvægasti hlekkurinn í liðinu það tímabilið. Liðið var aldrei nálægt því að verja titilinn á síðustu leiktíð.

Carragher varar stuðningsmenn félagsins við því að búast við of miklu af Hollendingnum, í það minnsta fyrst um sinn.

„Hann lenti í mjög alvarlegum meiðslum og það er mikilvægt að hann fái að fara rólega af stað aftur. Ef hann nær sér fullkomlega er hann besti varnarmaður heims og það er það sem Liverpool vill hafa næstu fimm eða sex árin, ekki næstu fimm eða sex vikurnar.“

„Ef hann nær ekki fyrstu leikjum tímabilsins er það ekki hræðilegt. Þetta snýst um að Virgil van Dijk nái fullri heilsu svo hann hafi möguleika á að ná fram sínu besta með Liverpool næstu árin,“ segir Carragher.

Liverpool hefur leik í ensku úrvalsdeildinni þann 14.ágúst næstkomandi þegar liðið sækir nýliða Norwich heim.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×