Fótbolti

Spjöldin vinni gegn hlýnun jarðar

Valur Páll Eiríksson skrifar
Eitt af 122 rauðum spjöldum síðustu leiktíðar í tyrknesku úrvalsdeildinni fer á loft.
Eitt af 122 rauðum spjöldum síðustu leiktíðar í tyrknesku úrvalsdeildinni fer á loft. Arif Hudaverdi Yaman/Anadolu Agency via Getty Images

Knattspyrnusamband Tyrklands kynnti til sögunnar athyglisverða herferð í dag. Sambandið ætlar að standa að plöntun trjáa fyrir hvert spjald sem gefið er í fótboltadeildum í landinu.

Tyrkneski fótboltinn hefur löngum verið þekktur fyrir fjölda spjalda. Hvort um sé að kenna spjaldaglöðum dómurum eða sérstaklega grófum fótbolta skal ósagt látið.

Tyrkneska fótboltasambandið virðist vilja að spjaldagleðin fái jákvæðari ímynd, þar sem ákvörðun var tekin á stjórnarfundi þess að hefja skildi gróðursetningarverkefni. Fyrir hvert gult spjald sem gefið er hyggst sambandið gróðusetja eitt tré og fimm skuli gróðursett fyrir hvert rautt spjald.

Skóglendi hefur minnkað á heimsvísu undanfarin ár, þar sem Amazon-frumskógurinn í Brasilíu hefur til að mynda dregist saman um 8% frá aldamótum. Það á hlut að máli í hlýnun jarðar en tré ljóstillífa, sem felst í því að þau draga til sín kolefni og losa súrefni.

Í efstu deild Tyrklands fór 1631 gult spjald á loft á síðustu leiktíð og 122 rauð spjöld, að meðaltali tæplega 41 gult spjald og þrjú rauð í hverri umferð. Hefði verkefnið verið virkt þá væri búið að gróðursetja 2241 tré vegna spjaldanna.

Ljóst er að verkefnið mun líkast til ekki hafa fráhrindandi áhrif þegar kemur að spjöldum en áhugavert verður að sjá hvort Tyrkland verði skógi vaxið þökk sé grófum fótboltamönnum landsins að nokkrum árum liðnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×