Innlent

„Nú væri gott ef þessir ferða­menn gætu verið annars­staðar en hjá okkur“

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Gylfi Þór Þorsteinsson er umsjónarmaður farsóttarhúsa Rauða krossins.
Gylfi Þór Þorsteinsson er umsjónarmaður farsóttarhúsa Rauða krossins. Vísir/Einar

Undanfarið hefur fólki í sóttkví og einangrun hjá farsóttarhúsum fjölgað mikið. Forstöðumaður húsanna segir óbólusetta ferðamenn farna að valda vandræðum, og gott væri ef þeir gætu haldið til annars staðar, þar sem lausum einangrunarplássum fari fljótt fækkandi.

Yfir 200 manns eru nú í einangrun í farsóttarhúsi og hátt í 50 í sóttkví. Þá eru 150 ferðamenn í skimunarsóttkví, en það eru óbólusettir ferðamenn sem farið hafa í skimun á landamærum og þurfa að sæta nokkurra daga sóttkví áður en þeir geta farið ferða sinna um landið.

Gylfi Þór Þorsteinsson, forstöðumaður farsóttarhúsanna, segir þann hóp gera starfið erfiðara en ella.

„Það er svona sá hópur sem er svolítið að gera okkur erfitt fyrir, vegna þess að við erum að verða plásslaus fyrir þá sem þurfa mest á því að halda. Þannig að nú væri gott ef þessir ferðamenn gætu verið annarsstaðar en hjá okkur, til þess að losa um plássið.“

Gylfi Þór segir hvaða hótel geta tekið við umræddum gestum, að uppfylltum nokkrum skilyrðum frá ferðamálastofu. Margir ferðamenn kjósi hins vegar dvöl á farsóttarhúsi til að losna við að borga fyrir hóteldvöl.

„Nú er alveg spurning hvort að ríkisstjórnin taki sig ekki til og leggi það úrræði bara niður, þannig að við getum einbeitt okkur að þeim sem þurfa að vera í sóttkví eða einangrun.“

Gengur hægt en gengur þó

Gylfi Þór segir að erfiðlega hafi gengið að manna í störf á farsóttarhúsunum. Starfið gangi, en mikið álag sé á starfsfólki.

„Við erum að reyna að bæta við fólki eins hratt og við mögulega getum. Það er kannski ekki auðvelt heldur, að finna fólk á miðju sumri. Fólk er í sumarleyfum sínum og aðrir líta svo á að það sé stutt í að þeir byrji í skóla, þannig að það taki þessu ekki. Það gengur hægar en við vorum að vona, en gengur þó,“ segir Gylfi Þór.


Tengdar fréttirAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.