Íslenski boltinn

Búnar að jafna félagsmetið þótt að það séu enn sex leikir eftir

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Það hefur verið gaman hjá stelpunum í Þrótti í sumar. Hér fagna þær marki frá Ólöfu Sigríði Kristinsdóttur sem er orðin markahæsti leikmaður félagsins í efstu deild frá upphafi.
Það hefur verið gaman hjá stelpunum í Þrótti í sumar. Hér fagna þær marki frá Ólöfu Sigríði Kristinsdóttur sem er orðin markahæsti leikmaður félagsins í efstu deild frá upphafi. Vísir/Hulda Margrét

Þróttarakonur hoppuðu upp um þrjú sæti í Pepsi Max deild kvenna í fótbolta í gær eftir 3-0 sigur á Keflavík í Laugardalnum.

Þróttur fór úr sjötta sætið og upp í þriðja sætið með þessum sigri. Liðið er með jafnmörg stig og Selfoss en er með betri markatölu.  Mörk liðsins skoruðu þær Ólöf Sigríður Kristinsdóttir, Shea Moyer og Guðrún Gyða Haralz. Þetta var fjórði deildarleikur liðsins í sumar þar sem liðið skorar þrjú mörk eða fleiri.

Þetta er þegar orðið sögulegt sumar fyrir kvennalið félagsins enda liðið komið í bikarúrslitaleikinn í fyrsta skiptið og í gær jafnaði liðið stigamet félagsins í efstu deild.

Þróttur hefur unnið fjóra deildarleiki í sumar og allir sigrar hafa komið í átta síðustu leikjum liðsins. Þróttur gerði þrjú jafntefli í fyrstu fjórum leikjum sumarsins.

Þróttur er nú komið með átján stig í fyrstu tólf leikjum sínum en liðið sett nýtt met með því að ná í átján stig í sextán leikjum í fyrrasumar.

Þróttaraliðið fær því sex leiki til viðbótar til að bæta þetta met og liðið er enn fremur aðeins tveimur mörkum frá því að slá markamet félagsins í efstu deild.

Ólöf Sigríður Kristinsdóttir skoraði fyrsta mark Þróttar í gær og lagði upp annað markið. Hún er núna komin með 7 mörk í 9 leikjum í sumar og alls 13 mörk í 23 leikjum með Þrótti í efstu deild. Ólöf er orðin markahæsti leikmaður Þróttar frá upphafi í efstu deild kvenna.

Þróttur hefur unnið 4 af 8 leikjum þar sem Ólöf Sigríður hefur verið í byrjunarliðinu í sumar og aðeins tapað tveimur.

Stig Þróttarakvenna á síðustu tímabilum félagsins í efstu deild:

  • 2021 - 18 stig (6 leikir eftir)
  • 2020 - 18 stig
  • 2015 - 2 stig
  • 2013 - 3 stig
  • 2011 - 9 stig
  • 2003 - 4 stig (sem Þróttur/Haukar)Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.