Innlent

Ráðherrar skuldi þjóðinni afsökunarbeiðni á kolrangri sóttvarnarstefnu

Snorri Másson skrifar
Gunnar Smári Egilsson segir að rekin hafi verið sóttvarnarstefna gegn vilja þjóðarinnar. Ríkisstjórnin læri ekki af mistökum sínum.
Gunnar Smári Egilsson segir að rekin hafi verið sóttvarnarstefna gegn vilja þjóðarinnar. Ríkisstjórnin læri ekki af mistökum sínum. Stöð 2

Gunnar Smári Egilsson, stofnandi Sósíalistaflokksins og frambjóðandi flokksins í komandi Alþingiskosningum, segir að ríkisstjórnin eigi að biðja þjóðina afsökunar á því sem hann segir kolranga sóttvarnarstefnu sem sé rekin gegn augljósum meirihlutavilja þjóðarinnar.

Gunnar Smári segir að ríkisstjórnin hafi valið að láta frekar undan kröfum eigenda stórra fyrirtækja í ferðaþjónustunni og um leið veikt varnirnar á landamærunum. Því hafi veiran ítrekað sloppið inn með tilheyrandi nýjum bylgjum innanlands.

„Almenningur hefði miklu fremur viljað halda uppi sóttvörnum á landamærum og fá að halda Þjóðhátíð í Eyjum, Druslugöngu, Menningarnótt og Gleðigöngu,“ skrifar Gunnar Smári í grein á Vísi í dag.

„Allur meginþorri almennings kýs að fá að lifa frjálsu lífi innan samfélagsins og taka á sig sóttkví ef hann þarf að ferðast til útlanda. Þau sem vilja kalla takmarkanir á daglegt líf og ófrelsi yfir almenning, veikindi og jafnvel dauða, til þess eins að hingað komi ferðamenn einhverjum misserum fyrr en ella, eru algjör minnihluti landsmanna,“ skrifar Gunnar.

Gunnar Smári segir að ríkisstjórnin tilheyri þessum minnihluta. Hann heldur því fram að vegna misráðinnar stefnu stjórnvalda hafi Íslendingar fengið einn takmarkalausan mánuð síðan farsóttin hófst, á meðan Nýsjálendingar hafi notið slíks frelsis í um 70% tímans sem liðinn er frá upphafi faraldurs. Þar sé enda farið að vilja almennings, enda ekki eigenda ferðaþjónustufyrirtækja.


Tengdar fréttir

Ör­tröð á Kefla­víkur­flug­velli í morgun

Fullt var út úr dyrum og gott betur en það á Keflavíkurflugvelli í morgun. Sextán flugvélar hófu sig á loft fyrir klukkan níu í morgun og 34 vélar til viðbótar fljúga utan síðar í dag.

Segir hags­muni ferða­þjónustunnar líka hags­muni þjóðarinnar

Formaður Samtaka ferðaþjónustunnar segir ferðaþjónustuna hafa orðið fyrir miklum vonbrigðum eftir að tilkynnt var að bólusettir ferðamenn yrðu krafðir um neikvætt Covid-19 próf við landamærin. Hagsmunir ferðaþjónustunnar séu ekki aðeins hennar, heldur þjóðarinnar allrar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×