Fótbolti

Þeir eru með að­eins meiri gæði en við

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Matthías var svekktur í leikslok.
Matthías var svekktur í leikslok. Vísir/Hulda Margrét

Matthías Vilhjálmsson var ekki sáttur með 0-2 tap FH á heimavelli gegn Rosenborg í 2. umferð undankeppni Sambandsdeildar Evrópu í kvöld. Matthías lék lengi vel með norska liðinu og fékk frábært færi til að minnka muninn.

FH var síst verra liðið í leiknum og leikskipulag þeirra gekk upp lengst af. Góð lið refsa hins vegar og það gerðu Rosenborg í kvöld.

„Vonsvikinn að við náðum ekki að halda aðeins lengur út. Fannst við spila mjög agað og góðan varnarleik í fyrri hálfeik. Sköpuðum betri færi en þeir en svo vorum við alltof lágir í pressunni í seinni hálfleik og þeir nýttu sér það.“

„Við vorum orðnir þreyttir þarna undir lokin en heilt yfir fengum við færin til þess að skora á þá. Ég fékk eitt og Jónatan Ingi (Jónsson) átti skot í stöng og fékk færi undir lokin. Bara vonsvikinn að þetta var ekki aðeins jafnara í seinni hálfleik,“ sagði Matthías sársvekktur í leikslok.

Staðan var markalaus í hálfleik en gestirnir skoruðu eftir rúman klukkutíma. Það mark kom eins og þruma úr heiðskíru lofti. Sló það FH út af laginu?

„Það getur vel verið. Þeir eru með aðeins meiri gæði en við og við vorum orðnir þreyttir, þegar maður er þreyttur tekur maður slæmar ákvarðanir. Heilt yfir var þetta fín frammistaða en vonsviknir yfir úrslitunum.“

„Það hefði verið meiri séns ef þetta hefði bara farið 1-0 en svona fór þetta í dag. Svona er munurinn á þessum liðum. Við lærum helling af þessu, vonandi,“ sagði Matthías að endingu.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.