Erlent

Kína vill ekki á­fram­haldandi rann­sókn WHO á upp­runa kórónu­veirunnar

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Frá sýningu um kórónuveiruna á Náttúruminjasafni Wuhan.
Frá sýningu um kórónuveiruna á Náttúruminjasafni Wuhan. Getty

Kína hefur hafnað tillögu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar um áframhaldandi rannsókn á uppruna kórónuveirunnar. Ein af tilgátum stofnunarinnar er sú að veiran hafi sloppið út af kínverskri tilraunarstofu en sú kenning hefur ekki fallið í kramið meðal kínverskra stjórnvalda.

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin, WHO, lagði til fyrr í þessum mánuði að rannsókn hennar á upprunar kórónuveirunnar færi upp á annað stig. Stofnunin hefur þegar sent teymi vísindamanna til Wuhan, þar sem fyrstu smitin greindust fyrir tæpum tveimur árum, en þeir gátu aðeins rannsakað málið í tvær vikur í það skiptið.

Nú vill WHO senda teymi til Wuhan til að skoða markaði og rannsóknarstofur og hefur stofnunin kallað eftir því að kínversk stjórnvöld verði liðleg og tryggi algera gegnsæi við rannsóknina. Fréttastofa Reuters greinir frá. 

„Við munum ekki samþykkja svona upprunarakningar áætlun, sem að mörgu leyti hundsar almenna þekkingu og fer gegn vísindum,“ sagði Zeng Yixin, aðstoðarráðherra í heilbrigðisnefnd Kína.

Hann segist hafa verið hissa þegar hann hafi lesið tillögu WHO. Þar hafi Kína verið sakað um að reglur um rannsóknarstofur hafi verið brotnar og orðið til þess að veiran hafi lekið út í samfélagið á meðan á rannsókn á henni stóð.

Yfirmaður WHO sagði fyrr í þessum mánuði að rannsókn á uppruna kórónuveirufaraldursins í Kína væri strand vegna skorts á frumgögnum frá fyrstu dögum faraldursins í Kína.

Kína hefur haldið því fram að ekki sé hægt að afhenda gögnin vegna viðkvæmra upplýsinga um fólkið sem þar er að finna.

„Við vonum að WHO taki til greina tillögur kínverskra sérfræðinga og hugsi um rannsókn á uppruna veirunnar sem vísindalegt mál og skilji pólitíkina eftir,“ sagði Zeng.

Eins og flestir muna greindist fyrsta Covid-19 smitið í borginni Wuhan í nóvember 2019. Talið er að veiran hafi borist í mannfólk frá dýrum sem voru til sölu á matarmarkaði í borginni.

Margir, þar á meðal Joe Biden Bandaríkjaforseti, hafa velt upp þeirri spurningu hvort veiran hafi mögulega borist í dýrin eftir leka úr rannsóknarstofu í borginni. Kína hefur hins vegar harðneitað þeirri kenningu og hvatt WHO til að víkka sjóndeildarhringinn og rannsaka hvort uppruna veirunnar megi rekja til annarra landa.


Tengdar fréttir

Telja líklegast að veiran hafi borist úr dýrum

Líklegast er að nýtt afbrigði kórónuveirunnar hafi borist úr leðurblökum í menn í gegnum aðra dýrategund samkvæmt niðurstöðum sameiginlegrar rannsóknar Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar (WHO) og kínverskra stjórnvalda. „Afar ólíklegt“ er talið að veiran hafi sloppið út af tilraunastofu eins og samsæriskenningar hafa verið um.

Segja Kínaferðina ekki hafa skilað miklum árangri

Vísindamenn Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar segja Kínaheimsókn þeirra ekki hafa skilað miklum árangri varðandi skilning vísindamanna á nýju kórónuveirunni. Hins vegar hafi teymi stofnunarinnar tekist að auka þekkingu varðandi upphaf faraldursins.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×