Erlent

Kallar eftir auknu gagn­sæi í rann­sókn á upp­runa veirunnar

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Frá kínversku borginni Wuhan, hvaða veiran breiddist fyrst út. Myndin er tekin í janúar á síðasta ári.
Frá kínversku borginni Wuhan, hvaða veiran breiddist fyrst út. Myndin er tekin í janúar á síðasta ári. Getty

Heilbrigðisráðherra Bandaríkjanna, Xavier Becerra, hvetur Alþjóðaheilbrigðismálastofnunina (WHO) til þess að hafa næsta hluta rannsóknar á uppruna kórónuveirunnar gagnsærri en rannsóknin hefur hingað til verið.

Hann telur að sérfræðingar víða að úr heiminum ættu að fá aðgang að gögnum til að meta hvaðan veiran á uppruna sinn.

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin gaf það út í mars á þessu ári að hverfandi líkur væru á að rekja mætti uppruna veirunnar til rannsóknarstofu í Kína, líkt og samsæriskenningar höfðu verið uppi um. Stofnunin sagði þó að frekari rannsókna væri þörf. Breska ríkisútvarpið segir nú að þessi kenning hafi fengið aukið fylgi hjá bandarískum fjölmiðlum.

Kínversk stjórnvöld hafa alfarið hafnað því að útbreiðslu veirunnar megi rekja til tilraunastofu, og hafa svarað því með vangaveltum um hvort bandarískar tilraunastofur gætu verið upphafspunktur faraldursins.

Xavier Becerra, heilbrigðisráðherra Bandaríkjanna.Greg Nash-Pool/Getty

Á ráðstefnu með embættismönnum innan WHO gaf Becerra það sterklega í skyn að Bandaríkjastjórn ætlaðist til þess að stofnunin skoðaði málið betur, án þess að nefna Kína sérstaklega á nafn.

„Faraldurinn tók ekki aðeins ár úr lífi okkar, heldur tók hann milljónir lífa,“ sagði Becerra.

„Önnur lota rannsóknar á uppruna veirunnar verður að fara fram á forsendum gagnsæi, vísinda og gera vísindamönnum heimsins kleift að meta árdaga faraldursins á sjálfstæðan máta.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×