Erlent

Geimskot Bezos og félaga heppnaðist fullkomlega

Samúel Karl Ólason skrifar
Fyrsta skrefinu skotið á loft.
Fyrsta skrefinu skotið á loft. AP/TOny Gutierrez

Jeff Bezos, ríkasti maður heims, ferðaðist út fyrir gufuhvolf jarðarinnar á eigin geimflaug í dag. Hann var annar auðjöfurinn til að skjóta sjálfum sér á loft á nokkrum dögum.

Bezos fór út í geim um borð í geimfarinu RSS First Step, eða fyrsta skrefið, sem byggt var af starfsmönnum fyrirtækisins Blue Origin, sem er í eigu Bezos. Markmið fyrirtækisins er meðal annars að skjóta auðugum ferðamönnum út í geim.

Geimferðin heppnaðist vel og tók rúmar tíu mínútur frá upphafi til enda. Geimfarinu var skotið í rúmlega hundrað kílómetra hæð.

Hér má sjá geimskotið allt og hlusta á geimfarana sjálfa.

Sú hæð markar Kármán-línuna svokölluðu sem táknar enda gufuhvolfsins og byrjun geimsins.

Með Bezos var bróðir hans Mark, hinn átján ára gamli Oliver Daemen og hin 82 ára gamla Wally Funk. Þau síðastnefndu eru yngsti geimfari jarðarinnar og sá elsti.

Hér má sjá stutt myndband um Wally Funk.

Fyrsta skrefið var borið út í geim á eldflaug af gerðinni New Shepard. Þar slitnaði efsti hluti farsins frá og geimfararnir gátu virt jörðina fyrir sér í gegnum stóra glugga á farinu.

Eldflaugin sem flutti þau út í geim sneri sjálfkrafa við og lenti aftur á jörðu niðri, nokkrum mínútum seinna svifu geimfararnir til jarðar í fallhlífum.

Við lendingu virtust áhafnarmeðlimir Fyrsta skrefsins hinir ánægðustu með ferðina.


Tengdar fréttir

Bein útsending: Bezos og áhöfn skotið út í geim

Auðjöfurinn Jeff Bezos, ríkasti maður heims, ætlar að láta skjóta sér út í geim í dag. Það á að gera um borð í New Shepard geimflaug fyrirtækisins Blue Origin, sem Bezos stofnaði og á að flytja ferðamenn út í geim.

Auðjöfrar fjölmenna í geimnum

Auðjöfurinn Richard Branson ætlar að láta skjóta sér út í geim á sunnudaginn. Hinn 70 ára gamli Branson mun fara út í geim um borð í VSS Unity, geimflaug fyrirtækisins Virgin Galactic, sem Branson á.

Á ní­ræðis­aldri og ætlar út í geim með Bezos

Wally Funk, 82 ára bandarísk kona, verður elsta manneskjan til að fara út í geim en hún mun ganga í lið með Amazon stofnandanum Jeff Bezos og bróður hans í fyrstu geimferð geimferðafyrirtækisins Blue Origin.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×