Innlent

Rúmlega þúsund skráðir í sýnatöku í dag

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Röðin í morgun.
Röðin í morgun. vísir/heimir

Löng röð fólks á leið í sýnatöku myndaðist fyrir utan húsnæði heilsugæslunnar við Suðurlandsbraut í morgun. Klukkan rúmlega ellefu í morgun voru 1172 skráðir í sýnatöku í dag en sú tala gæti hækkað þegar líður á daginn að sögn verkefnastjóra hjá heilsugæslunni.

Sýnataka vegna kórónuveirunnar fer fram á horni Grensásvegar og Suðurlandsbrautar þar sem Orkuhúsið var áður til húsa. Í morgun myndaðist löng röð á svæðinu sem teygði sig upp í Ármúla.

Klippa: Sýnatökuröðin í morgun

Ingibjörg Salóme Steindórsdóttir, verkefnastjóri hjá heilsugæslunni segir í samtalið við fréttastofu á ellefta tímanum að röðin sé ekki eins löng og hún var í morgun.

„Það var smá hökt í byrjun. Það gerist alltaf á morgnana klukkan svona korter yfir átta,“ segir Ingibjörg og bætir við að margir mæti snemma morguns í bókaða sýnatöku þó tími þeirra sé seinna um daginn. 

Líkt og sést á þessari mynd er nokkuð um rusl á svæðinu.vísir/heimir

Sextán manns greindust með Covid-19 innanlands í gær. Þar af voru sex í sóttkví. Einn greindist á landamærunum.

Þegar fréttastofa ræddi við Ingibjörgu voru 1172 skráðir í sýnatöku. Í þeim hópi er fólk sem er í sóttkví, fólk með einkenni og þeir sem rakningarteymið hefur ráðlagt að mæta í sýnatöku. Þessu til viðbótar eru 679 ferðamenn skráðir í sýnatöku í dag.

Ingibjörg segir að þó margir séu skráðir í sýnatöku í dag ætti bið ekki að vera lengri en tíu til fimmtán mínútur.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×