Fótbolti

Brunaútsala hjá Barcelona

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Clement Lenglet og Sergino Dest gætu verið á förum frá Barcelona.
Clement Lenglet og Sergino Dest gætu verið á förum frá Barcelona. getty/Berengui

Barcelona er tilbúið að selja varnarmennina Clement Lenglet, Sergino Dest og Samuel Umtiti til að létta á launakostnaði félagsins.

Barcelona á í miklum fjárhagskröggum og þarf að losa leikmenn af launaskrá, meðal annars til þess að geta skráð nýja leikmenn til leiks. Barcelona ku vera fjörutíu prósent yfir launaþaki spænsku úrvalsdeildarinnar.

Samkvæmt spænska dagblaðinu Sport er Lenglet, Dest og Umtiti til sölu og þeir gætu yfirgefið Barcelona á næstu dögum ef réttu tilboðin berast.

Talsverður áhugi er á þremenningunum, sérstaklega Lenglet og Dest, meðal annars frá Englandi og Ítalíu. Frakkarnir Antoine Griezmann og Ousmane Dembélé gætu einnig verið á förum frá Barcelona.

Eins og frá var greint í síðustu viku mun Lionel Messi framlengja samning sinn við Barcelona. Hann tekur á sig fimmtíu prósenta launalækkun en fær fimm ára samning.

Barcelona endaði í 3. sæti spænsku úrvalsdeildarinnar á síðasta tímabili en varð bikarmeistari.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×