Fótbolti

Messi tekur á sig fimmtíu prósenta launalækkun en fær fimm ára samning

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Lionel Messi verður hjá Barcelona þar til hann verður 39 ára.
Lionel Messi verður hjá Barcelona þar til hann verður 39 ára. epa/ENRIC FONTCUBERTA

Lionel Messi skrifar undir nýjan samning við Barcelona í lok mánaðarins. Spænski fjölmiðilinn SPORT greinir frá þessu.

Samningur Messis við Barcelona rann út um síðustu mánaðarmót og hann hefur tæknilega séð verið án félags síðan þá.

Samkvæmt SPORT hefur Messi nú náð samkomulagi við Barcelona um nýjan samning. Argentínumaðurinn tekur á sig fimmtíu prósenta launalækkun en fær hins vegar fimm ára samning. Messi er 34 ára og verður því 39 ára þegar nýi samningurinn rennur út.

Messi óskaði eftir því að fara frá Barcelona síðasta sumar en varð ekki að ósk sinni. Framtíð hans hefur verið í óvissu undanfarna mánuði en nú er ljóst að hann verður áfram hjá Barcelona, félaginu sem hann hefur leikið með allan sinn feril.

Barcelona á í miklum fjárhagserfiðleikum og hefur ekki enn getað skráð nýja leikmenn liðsins eins og Memphis Depay og Sergio Agüero til leiks. Þess vegna er launalækkun Messis kærkomin fyrir forráðamenn Barcelona.

Messi, sem er fyrirliði Barcelona, varð bikarmeistari með liðinu á síðasta tímabili og markakóngur spænsku úrvalsdeildarinnar. Hann er bæði leikja- og markahæstur í sögu Barcelona.

Um helgina fagnaði Messi sínum fyrsta titli með argentínska landsliðinu þegar það vann Brasilíu í úrslitaleik Suður-Ameríkukeppninnar. Messi var valinn besti leikmaður mótsins og var þar að auki markakóngur þess.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×