Erlent

Sjálfsfróunarummæli falla ekki í kramið í Suður-Kóreu

Samúel Karl Ólason skrifar
Moon Jae In, forseti Suður-Kóreu.
Moon Jae In, forseti Suður-Kóreu. EPA/YONHAP

Erfiðlega gengur að halda fyrsta fund núverandi leiðtoga Japans og Suður-Kóreu. Til stóð að Moon Jae In, forseti Suður-Kóreu, ferðaðist til Japans í vikunni en sú ferð er í óvissu vegna ummæla japansks erindreka.

Hirohisa Soma, sem er hátt settur erindreki í sendiráði Japans í Suður-Kóreu, sagði í viðtali að viðleitni Moons til að bæta samskipti Japans og Suður-Kóreu væri hægt að líkja við „sjálfsfróun“. Hann sagði að yfirvöld í Japan hefðu ekki tíma til að sýna samskiptum ríkjanna þann áhuga sem ráðamenn í Suður-Kóreu vildu.

Samkvæmt Yonhap-fréttaveitunni í Suður-Kóreu, stóð til að Moon færi til Japans á föstudaginn að fylgjast með Ólympíuleikunum og hitta Yoshihide Suga, forsætisráðherra Japans í fyrsta sinn.

Yoshihide Suga, forsætisráðherra Japans.EPA/NICOLAS DATICHE

Nú er óljóst hvort Moon muni fara og segja embættismenn í Suður-Kóreu að viðræður um ferðina eiga sér stað.

Yonhap segir kannanir sýna að almenningur í Suður-Kóreu er andvígur því að Moon fari til Japans. Samband ríkjanna hefur ekki verið gott undanfarið og má að miklu leyti rekja það til deilna um bótagreiðslur vegna ódæða í hernámi Japans á Suður-Kóreu frá 1910 til 1945.

Þær deilur eru meðal þess sem Moon og Suga ætluðu að ræða sín á milli á föstudaginn.

Reuters segir að ráðamenn í Japan ætli að flytja Soma, þann sem líkti viðleitni Moon við sjálfsfróun, í starfi. Hann mun einnig hafa verið ávíttur fyrir ummælin.

Uppfært 8:18 - Moon hefur hætt við ferðina.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×