Innlent

Héldu að þau yrðu örugg á Ís­landi en eigin­maðurinn smitaðist samt

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Laurie Vansteenkiste, gestur farsóttarhúss.
Laurie Vansteenkiste, gestur farsóttarhúss.

Farþegi skemmtiferðaskipsins Viking Sky hefur ekki hugmynd um hvar eiginmaður hennar, einnig farþegi á skipinu, smitaðist af kórónuveirunni. Hún lætur vel af Íslandsdvölinni þrátt fyrir allt. Aðrir gestir farsóttarhússins taka í sama streng.

Gestir farsóttarhússins við Rauðarárstíg reyndu margir að njóta sjaldséðrar veðurblíðunnar í höfuðborginni í gegnum galopna glugga þegar fréttastofu bar að garði í dag. 

Þeir Jakob Þór Magnússon, Kolbeinn Tumi Gautason og Leifur Guðlaugsson eru bólusettir og allir smitaðir af Covid. Jakob og Kolbeinn hófu einangrun á miðvikudag en Leifur kom á fimmtudag. Tveir fyrrnefndu telja að þeir hafi smitast við áhorf á leik Englands og Danmerkur á Evrópumótinu í knattspyrnu á dögunum en Leifur segir að sitt smit sé alveg órakið.

Þeir Jakob Þór Magnússon, Kolbeinn Tumi Gautason og Leifur Guðlaugsson eru bólusettir og allir smitaðir af Covid. Þeir dvelja nú í farsóttarhúsi, ásamt fjölda annarra í einangrun og sóttkví.

Fullbólusett og heilsast vel

Jökull Veigarsson og Guðrún Gígja Aradóttir voru útsett fyrir smiti á skemmtistaðnum Bankastræti club um síðustu helgi. Þau losna líklega úr sóttkví á morgun en hafa hingað til stytt sér stundir með púsluspili og hámhorfi á Grey's Anatomy.

„Við erum ekki með Covid, við erum fullbólusett og heilsast vel. Þannig að allt í góðu sko,“ segir Jökull upplitsdjarfur í glugganum.

Jökull og Guðrún Gígja hlakka til að losna úr sóttkví á morgun.

Laurie Vansteenkiste frá Michigan Bandaríkjunum, nýkomin úr sóttkvíargöngutúr þegar fréttastofa tók hana tali, kom til Reykjavíkur ásamt eiginmanni sínum á laugardag með skemmtiferðaskipinu Viking Sky á laugardag.

„Og svo á þriðjudag var hringt í okkur um kvöldið. Maðurinn minn greindist með Covid og þeir settu hann þá í eina káetu og ég varð eftir í káetunni okkar,“ segir Laurie. Sjálf hefur hún ekki greinst með Covid og er aðeins í sóttkví.

Laurie hefur ekki hugmynd um hvar eiginmaðurinn smitaðist. Þau hjónin hafa nú verið fullbólusett um nokkurt skeið.

„Við erum miklið ferðafólk og reiknuðum með að við yrðum örugg. Þetta hefur verið frábært. Fólkið á skipinu hefur verið frábært og fólkið hér [í farsóttarhúsi] hefur verið frábært.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×