Fótbolti

Frá Man United til fé­lags sem hefur ekki enn spilað sinn fyrsta leik

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Casey Stoney er komin til San Diego.
Casey Stoney er komin til San Diego. Visionhaus/Getty Images

Casey Stoney, fyrrverandi þjálfari kvennaliðs Manchester United, mun stýra San Diego í NWSL-deildinni í Bandaríkjunum á næstu leiktíð. Félagið er sem stendur ekki í deildarkeppni.

Stoney tók við Manchester United þegar kvennalið félagsins var sett aftur á laggirnar árið 2018. Undir hennar stjórn rúllaði liðið yfir B-deildina í Englandi og var í 4. sæti er úrvalsdeildinni var hætt vegna kórónuveirunnar á síðasta ári. Liðið endaði aftur í 4. sæti á nýafstöðnu tímabili en ýmis vandamál innan veggja þess urðu til þess að Stoney sagði starfi sínu lausu.

Nú hefur verið staðfest að hún muni þjálfa lið San Diego í NWSL-deildinni í Bandaríkjunum á næstu leiktíð en félagið er í óðaönn að gera og græja allt sem þarf til að liðið geti tekið þátt.

„Ég er mjög spennt fyrir því að stýra San Diego í NWSL-deildinni á næstu leiktíð. Ég hlakka til að byggja upp nýja menningu og leikstíl“ sagði hin 39 ára gamla Stoney um komandi tímabil.

San Diego ætti að vera í góðum höndum með Stoney sem aðalþjálfara og Jill Ellis sem forseta. Sú síðarnefna þjálfaði bandaríska landsliðið með góðum árangri og varð til að mynda heimsmeistari tvívegis.

Tvö ný lið verða í NWSL-deildinni á næstu leiktíð en Angel City – félag byggt upp af Hollywood-stjörnum, Serenu Williams og fleirum – mun einnig taka þátt.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×