Erlent

Blaðamaður Reuters felldur í átökum við Talibana

Samúel Karl Ólason skrifar
Harðir bardagar hafa beisað við landamæri Afganistans og Pakistans.
Harðir bardagar hafa beisað við landamæri Afganistans og Pakistans. EPA/M. SADIQ

Danish Siddiqui, blaðamaður og ljósmyndari Reuters fréttaveitunnar, féll í bardögum stjórnarhers Afganistans og Talibana við landamæri Afganistans og Pakistans í morgun. Siddiqui var á ferð með afgönskum hermönnum þar sem þeir reyndu að ná aftur tökum á bænum Spin Boldak.

Árið 2018 vann Siddiqui Pulitzer-verðlaun, auk annarra ljósmyndara fréttaveitunnar, fyrir myndir þeirra í tengslum við flótta Róhingjafólksins frá Mjanmar.

Í tilkynningu Reuters segir að hann hafi verið skotinn til bana af vígamönnum Talibana, ásamt afgönskum liðsforingja. Ljósmyndarinn var á ferð með deild sérsveitarmanna í Kandahar í Afganistan og hafði verið að taka myndir og skrifa fréttir um bardaga þeirra við Talibana.

Siddiqui hafði unnið fyrir Reuters frá 2010. Hann var frá Indlandi og hafði meðal annars starfað í Afganistan, Írak, Hong Kong og í Nepal í kjölfar jarðskjálfta.

Í meðfylgjandi þræði má sjá myndir og myndskeið sem Siddiqui tók þegar Talibanar sátu fyrir honum og sérsveitarmönnunum fyrr í vikunni. Þá björguðu þeir særðum lögregluþjóni sem var umkringdur í útjaðri Kandahar-borgar.

Talibanar náðu stjórn á landamærunum fyrr í vikunni og hafa meðlimir stjórnarhersins reynt að ná tökum á landamærastöðinni aftur. AP fréttaveitan segir harða bardaga hafa geisað þar.

Fréttaveitan hefur komið höndum yfir myndefni sem sýnir vígamenn Talibana fá aðhlynningu á sjúkrahúsi í Chaman í Pakistan. Ráðamenn í Afganistan hafa um langt skeið sakað Pakistana um að skýla Talibönum en vitað er að leiðtogar þeirra halda til þar í landi.

Afganir og Bandaríkjamenn hafa einnig sakað Pakistan um að hleypa vígamönnum inn í landið til að fá aðhlynningu.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.