Innlent

Hætt að af­henda lög­­reglu ­vott­orð hælis­­leit­enda í bili

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Sigríður Dóra Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri lækninga hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.
Sigríður Dóra Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri lækninga hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Vísir

Ó­vissa er uppi um hvort Heilsu­gæslan á höfuð­borgar­svæðinu megi af­henda lög­reglu bólu­setningar­vott­orð ein­stak­linga eins og stofnunin gerði í til­felli tveggja Palestínu­manna sem voru sendir úr landi í síðustu viku. Heilsu­gæslan hefur á­kveðið að verða ekki við fleiri slíkum beiðnum lög­reglunnar fyrr en skorið verður úr um þetta at­riði.

Spurningar vöknuðu um lagalega heimild fyrir afhendingunum meðal hjálpar­sam­taka hælis­leit­enda á Ís­landi eftir að Palestínu­mennirnir tveir voru hand­teknir af lög­reglu þegar þeir sóttu þessi vott­orð sín. 

Sam­tökin hafa haldið því stað­fast­lega fram að lög­regla hafi blekkt mennina með vott­orðunum; lokkað þá til sín undir því yfir­skini að þeir ætluðu að af­henda þeim vott­orðin en síðan hand­tekið þá þegar þeir mættu á staðinn og sent þá úr landi.

Per­sónu­verndar­lög gera al­mennt ráð fyrir því að ekki megi af­henda heilsu­fars­upp­lýsingar fólks til annarra en þeirra sjálfra, nema heimild fyrir öðru finnist í ís­lenskum lögum.

Höfnuðu beiðni lögreglunnar í gær

Sig­ríður Dóra Magnús­dóttir, fram­kvæmda­stjóri lækninga hjá Heilsu­gæslu höfuð­borgar­svæðisins, stað­festir við Vísi að heilsu­gæslan hafi af­hent lög­reglunni bólu­setningar­vott­orð þessara tveggja ein­stak­linga eftir að lög­regla krafðist þess.

„Já, það koma öðru hvoru beiðnir frá lög­reglunni um að fá bólu­setningar­vott­orð ein­stak­linga af­hent sem við urðum við áður en það var hægt að senda þau raf­rænt með tölvu­pósti. Nú sendum við vott­orðin beint á þessa aðila,“ segir Sig­ríður Dóra.

Hún segir að það hafi verið talið réttast að verða við beiðnum lög­reglunnar á meðan ein­faldar af­hendingar­leiðir voru ekki til staðar. Sú á­kvörðun hafi verið tekin í sam­ráði við lög­mann heilsu­gæslunnar. Vott­orðin hafi verið af­hent í lokuðu um­slagi í góðri trú um að þarna væri verið að hjálpa þessum ein­stak­lingum.

Sig­ríður Dóra segir að­spurð að beiðni um af­hendingu bólu­setningar­vott­orðs hafi síðast borist frá lög­reglunni nú í gær. Henni hafi verið hafnað og lög­reglunni sagt að nú væri hægt að af­henda vott­orðið raf­rænt og að sú leið yrði farin.

Réttur lögreglu til upplýsinga er mikill

Hún kveðst reyndar ekki viss um hvernig bregðast eigi við ef lög­regla verður mjög á­fram um að fá vott­orðin á­fram af­hent: „Það er bara mikil ó­vissa uppi um þetta eins og er og við myndum vilja fá betur úr þessu skorið áður en við af­hendum lög­reglunni aftur vott­orð,“ segir hún.

„Réttur lög­reglu, eða yfir­valda al­mennt, til að fá upp­lýsingar er nefni­lega al­mennt mjög mikill.“

Því hafi ein­mitt verið á­kveðið upp­haf­lega að af­henda vott­orðin á grund­velli laga um heil­brigðis­starfs­menn, þar sem segir: „Heil­brigðis­starfs­mönnum er skylt að láta hinu opin­bera í té vott­orð um sjúk­linga er þeir annast þegar slíkra vott­orða er krafist vegna sam­skipta sjúk­lings við hið opin­bera.“

Svo virðist sem heilsu­gæslan vilji þó eitt­hvert álit Per­sónu­verndar á málinu en sam­kvæmt upp­lýsingum frá stofnuninni hefur enn ekkert erindi borist henni um málið. Per­sónu­vernd sé þó með það til skoðunar hvort hún eigi að fara í sjálf­stæða rann­sókn á þessum at­riðum.

Tilgangur lögreglu óljós

Lögregla hefur ekki svarað því enn hvort bólusetningarvottorð Palestínumannanna hafi verið notuð í þeim tilgangi að lokka þá á ákveðinn stað þar sem hægt yrði að handtaka þá. 

Lögreglan brást aðeins við ásökunum samtakanna um að lögregla hefði beitt ofbeldi og óþarflegri hörku við handtökurnar og frásögnum eins mannsins um að hafa fengið raflost, jafnvel frá rafbyssu, og verið sprautaður niður.

Í tilkynningu frá lögreglu í síðustu viku sagði að lögregla beitti hvorki rafbyssu né sprautu í neinum tilvikum, enda væri embættinu ekki  heimilt að nota slík tól. 

Þó var bent á að heilbrigðisstarfsmenn mættu sprauta fólk niður ef þeir mætu aðstæður svo að það væri best fyrir viðkomandi og aðra í kring um hann.

Í svari við fyrirspurn Vísis í gær um hvers vegna lögreglan kalli eftir bólusetningarvottorðum frá heilsugæslunni segir hún að það sé gert þegar þess er krafist af móttökulandi þeirra sem eru sendir úr landi að þeir séu bólusettir eða hafi farið í skimun.

Því var ekki svarað hvort lögregla hefði beitt vottorðum þessa tveggja einstaklinga til að lokka þá til lögreglunnar þar sem hægt væri að handtaka þá:

„Hvað varðar það mál sem þú spyrð um þá verður ekki hægt að veita neinar upplýsingar um það enda er málið nú komið til formlegrar meðferðar hjá Nefnd um eftirlit með lögreglu og rétt að bíða niðurstöðu þeirrar skoðunar," segir í svari lögreglunnar við fyrirspurn Vísis.


Tengdar fréttir

Solaris kvarta til Um­boðs­manns vegna Út­lendinga­stofnunar og lög­reglu

Stjórn Solaris - hjálparsamtaka fyrir hælisleitendur og flóttafólk á Íslandi hefur sent tilkynningu til nefndar um eftirlit með lögreglu um „ámælisverða starfshætti lögreglu, starfsaðferð og framkomu í starfi“ vegna aðgerðar á vegum Útlendingastofnunar og lögregluyfirvalda í húsakynnum stofnunarinnar í Hafnarfirði þriðjudaginn 6. júlí.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×