Erlent

Hafa náð tökum á þremur af 67 gróðureldum í Bandaríkjunum

Samúel Karl Ólason skrifar
Slökkviliðsmenn að störfum í Washington.
Slökkviliðsmenn að störfum í Washington. AP/Pete Caster

Rúmlega fjórtán þúsund slökkviliðsmenn og aðrir berjast um þessar mundir við fjölmarga skógar- og gróðurelda í vesturhluta Bandaríkjanna. Eldarnir spanna um fjögur þúsund ferkílómetra en heilt yfir loga 67 stórir eldar sem hafa brennt meira en 900 þúsund ekrur.

Slökkviliðsmenn telja sig hafa náð tökum á einungis þremur eldum, af 67, samkvæmt opinberum upplýsingum vestanhafs.

Nýir og stórir eldar eru sagðir hafa kviknað í Arizona, Idaho, Kaliforníu, Montana og Oregon. Stærsti eldurinn logar í þjóðgarði í Oregon.

AP fréttaveitan hefur eftir yfirmanni slökkviliðsmanna þar að þeir þurfi að hafa varann á vegna aðstæðna. Eldurinn hreyfist og færi sig hraðar en þeir hafi séð áður.

„Við höfum ekki séð eld hreyfa sig svona, við þessar aðstæður, svo snemma á árinu. Búist við því að eldurinn geri hluti sem þið hafið ekki séð áður,“ sagðir Al Lawson, yfirmaður aðgerða, við slökkviliðsmenn í þjóðgarðinum Fremont-Winema.

Miklir þurrkar

Veðurfarsbreytingar af mannavöldum hafa gert vesturhluta Bandaríkjanna hlýrri og þurrari. Vísindamenn segja að öfgar í veðri verði algengari með meiri hlýnun jarðar.

Eldarnir hafa brennt fjölmörg heimili víða og ógna fjölmörgum byggðum.

Eldarnir í Oregon og Washington ógna sömuleiðis landi ættbálka af frumbyggjaættum sem hafa þegar átt í vandræðum vegna vatnsskorts og erfiðleika við veiðar vegna mikillar þurrkatíðar undanfarin ár.

AP segir heimili margra hafa brunnið í báðum ríkjunum en gróðureldar ollu einnig miklum skemmdum á landi þeirra í fyrra.

Kort yfir hvar eldarnir loga í Bandaríkjunum má sjá hér á vef New York Times.

Eldar loga einnig í Kanada. Í frétt CBC sem fjallar um rýmingu í Ontario og víðar segir að í gærkvöldi hafi minnst 79 gróðureldar logað í ríkinu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×