Erlent

Á fimmta tug látinna í óeirðum í Suður-Afríku

Árni Sæberg skrifar
Óeirðarseggir lokuðu vegum að Soweto.
Óeirðarseggir lokuðu vegum að Soweto. AP Photo/Themba Hadebe

Minnst 45 hafa látist í óeirðum í Suður-Afríku. Óeirðirnar hófust eftir að fyrrum forseti landsins, Jakob Zuma, var fangelsaður.

Ofbeldisalda hefur riðið yfir Suður-Afríku síðan Zuma var fangelsaður á miðvikudag fyrir að mæta ekki fyrir dómara við rannsókn á meintum embættisbrotum hans.

Í gærkvöldi létust tíu í troðningi þegar óeirðarseggir fóru ránshendi um verslunarmiðstöð í Soweto, sem er stærsta fátækrahverfi Jóhannesarborgar. Tæplega 800 manns hafa verið handteknir í óeirðunum.

Her landsins hefur verið kallaður á vettvang þar sem lögreglan ræður ekki við óeirðirnar.

Meira ofbeldi hefur ekki sést í áratugi

Forseti landsins, Cyril Ramaphosa, hefur sagt ofbeldið vera það mesta sem hann hefur séð í landinu frá því áður en aðskilnaðarstefnan var afnumin á tíunda áratugnum. Eldar hafa verið kveiktir, þjóðvegum lokað og fyrirtæki rænd í KwaZulu-Natal og Gauteng héröðum.

Bheki Cele, lögregluráðherra Suður-Afríku, segir að ef óeirðirnar halda áfram með tilheyrandi ránum úr búðum muni fátækari svæði verða uppiskroppa með matvæli innan tíðar.

Þó hefur varnamálaráðherra landsins sagt að enn sem komið er sé ekki ástæða til að lýsa yfir neyðarástandi í landinu.

Sumir ráðamenn í landinu hafa sakað glæpagengi um að nýta sér ófriðarástand í landinu vegna fangelsunar Zuma á meðan aðrir segja óeirðirnar til komnar vegna óánægju þjóðarinnar vegna ástandsins í landinu.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.