Á morgun verður bólusett með bóluefni Pfizer frá klukkan tíu til tvö. Um er að ræða bæði bólusetningu með seinni skammti af Pfizer, en einnig svokallaðan „opinn dag.“
Þá gefst þeim sem ekki hafa fengið bólusetningu kostur á að mæta og fá fyrri skammt af Pfizer. Sá hópur þarf þó að bíða í fimm vikur eftir seinni skammti, en ekki þrjár líkt og venjan er með Pfizer-bóluefnið.
Á miðvikudag verður bólusett með seinni skammti af bóluefni Moderna frá klukkan 9:30 til 10:30. Klukkan 11 til 13 verður þá bólusett með AstraZeneca. Þeim sem fengið hafa fyrri skammt af AstraZeneca gefst kostur á að mæta í seinni bólusetningu með bóluefni Pfizer á morgun, kjósi þau það.
Á vef Heilsugæslunnar kemur fram að bólusetningar hefjist aftur um miðjan ágúst en með breyttu sniði.
„Fyrirkomulag þeirra liggur ekki fyrir en verður kynnt þegar nær dregur. Eins og er höfum við ekki svör við spurningum um bólusetningar eftir sumarfrí,“ segir einnig.