Erlent

Þungvopnuð á hóteli skömmu fyrir stjörnuleikinn

Samúel Karl Ólason skrifar
Starfsmaður Maven-hótelsins mun hafa séð byssurnar og tilkynnt þær til lögreglu.
Starfsmaður Maven-hótelsins mun hafa séð byssurnar og tilkynnt þær til lögreglu. AP/Davud Zalubowski

Lögregluþjónar í Denver í Bandaríkjunum handtóku á föstudaginn fjóra á hóteli í borginni og lögðu hald á fjölda skotvopna og hundruð byssukúlna. Stjörnuleikur hafnaboltadeildar Bandaríkjanna fer fram í Denver á þriðjudaginn og er talið mögulegt að fólkið hafi ætlað að fremja fjöldamorð.

Engar vísbendingar um það hafa þó fundist enn sem komið er, samkvæmt yfirlýsingu frá Alríkislögreglu Bandaríkjanna sem send var út í dag.

Starfsfólk Maven hótelsins, sem er stuttan spöl frá Coors leikvanginum þar sem stjörnuleikurinn fer fram, sendi lögreglu ábendingu á föstudaginn eftir að starfsmaður sá byssurnar. Leitað var í tveimur herbergjum og fundust fjölmörg skotvopn, þar á meðal rifflar, og mikið magn skotfæra.

Þrír menn og ein kona voru handtekin en Denver Post segir mennina þrjá eiga langan sakaferil að baki. Þá á einn mannanna að hafa skrifað á Facebook að hann vildi enda líf sitt á stórfenglegan hátt.

Fjölmiðlar vestanhafs höfðu eftir heimildarmönnum sínum í lögreglunni í Denver að þar á bæ hefðu menn áhyggjur af því að fólkið hafi ætlað að fremja fjöldamorð í líkingu við skotárásina í Las Vegas árið 2017 þar sem 58 létu lífið.

Eins og áður segir hafa rannsakendur þó engar vísbendingar fundið um að fólkið hafi ætlað að fremja fjöldamorð. Heimildarmaður AP fréttaveitunnar ítrekaði þó að rannsóknin væri skammt á veg komin.

Lögreglan hefur enn ekki veitt miklar upplýsingar um handtökurnar og fyrirspurnum AP hefur ekki verið svarað. Lögreglan í Denver gaf þó út tilkynningu þar sem starfsfólki hótelsins var hrósað. Um gott dæmi þess hve samfélagið sjálft væri mikilvægt í að tryggja öryggi. Þá voru gestir borgarinnar hvattir til að fylgjast með umhverfi sínu og tilkynna grunsamlega hegðun og ólöglegt athæfi til lögreglu.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.