Innlent

Gömlu góðu en löngu inn­ritunarraðirnar komnar aftur

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Myndin var tekin í Leifsstöð í morgun.
Myndin var tekin í Leifsstöð í morgun. vísir/atli

Langar raðir mynduðust við inn­ritunar­borð Leifs­stöðvar í morgun og varð seinkun á öllu morgun­flugi frá vellinum. Svo langar inn­ritunarraðir hafa ekki sést lengi á vellinum, bæði vegna heims­far­aldursins en einnig vegna þess að við ástandið í dag er ekki hægt að nota sjálfs­inn­ritunar­vélar, sem var komið fyrir á vellinum fyrir ör­fáum árum.

Ekki hefur verið hægt að nota þær vélar vegna allra þeirra bólu­setningar- og far­aldurs­pappíra sem far­þegar verða að fram­vísa til komast til út­landa.

Metfjöldi véla

Fjöldi þeirra sem fara í gegn um flug­völlinn hefur farið sí­vaxandi með hverjum deginum og er gert ráð fyrir að um 13 til 14 þúsund manns fari í gegn um flug­stöðina í dag, ýmist á leið inn eða út úr landinu.

Sam­tals hafa 23 vélar flogið frá landinu í há­deginu í dag og má ætla að fjöldi Ís­lendinga sé í þessum töluðu orðum á miðri leið í lang­þráð sumar­frí.

Alls fljúga 46 vélar frá landinu í dag og hafa fleiri vélar ekki farið frá landinu á einum sólar­hring frá því fyrir heims­far­aldurinn.

Fjöldi farþega óx hraðar en reiknað var með

Arn­grímur Guð­munds­son, að­stoðar­yfir­lög­reglu­þjónn lög­reglunnar á Suður­nesjum, segir um­ferð á flug­vellinum hafa verið fljóta að taka við sér eftir far­aldurinn:

„Það hefur orðið gríðar­leg aukning á fjölda far­þega, bæði þeirra sem eru að koma til landsins og þeirra sem eru að fara frá landinu, núna á síðast­liðnum tveimur mánuðum.

Arngrímur Guðmundsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá flugstöðvardeild lögreglunnar á Suðurnesjum.Vísir/Arnar

Ég held að þetta hafi vaxið mun hraðar en menn höfðu reiknað með og við sjáum það þegar líður fram á árið að mögu­lega förum við að nálgast tölur á komu­far­þegum ná­lægt því sem var 2019,“ segir Arn­grímur í sam­tali við Vísi.

Sólþyrstir Íslendingar

Hann segir greini­legt að ferða­vilji Ís­lendinga sé mikill:

„Ís­lendingarnir eru orðnir mjög sól­þyrstir. Við sjáum að flest flug til þessara suð­rænu landa eru full af Ís­lendingum og við sjáum að Ís­lendingar eru líka farnir að ferðast meira milli landa í kring um okkur, til Skandinavíu og Evrópu.“

Því hafa myndast langar raðir við inn­ritunar­borðin síðustu daga. En það eru fleiri skýringar á þeim:

„Þetta kemur til vegna þess að í flest­öllum löndunum í kring um okkur þá eru á­kveðnar kröfur til þeirra sem eru að koma til landsins,“ segir Arn­grímur.

„Flug­fé­lögin hérna á flug­vellinum þau þurfa að stað­festa þessi gögn sem far­þegarnir eru með svo þeir megi halda á­fram og það seinkar að sjálf­sögðu að­eins þeim tíma sem tekur að inn­rita far­þega og gerir það líka að verkum að það er ekki hægt að nýta þennan sjálf­virka inn­ritunar­búnað þar sem far­þegar geta af­greitt sig sjálfir í á flug­vellinum.“

Hann gerir ráð fyrir að álag á starfs­fólk vallarins fari vaxandi á næstu vikum og býst við að far­þega­fjöldinn gæti náð sér aftur í svipaðar hæðir á þessu ári og þekktust fyrir heims­far­aldurinn.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×