Erlent

Grábjörn dró konu úr tjaldi og drap hana

Samúel Karl Ólason skrifar
Hér má sjá eina gildruna sem búið er að koma fyrir í bænum.
Hér má sjá eina gildruna sem búið er að koma fyrir í bænum. AP/Tom Bauer

Grábjörn dró konu út úr tjaldi hennar í bænum Ovando í Montana og banaði henni í vikunni. Þrátt fyrir mikla leit hefur ekki tekist að finna og fella björninn. Konan hét Leah Davis Lokan og var 65 ára gömul. Hún var í hópi hjólreiðamanna sem var á ferð um svæðið.

Björninn drap konuna á þriðjudagsmorgun. Þá var það í annað sinn sem hann hafði komið á tjaldsvæðið sem hópurinn var á. Björninn er sagður hafa verið um 180 kíló að þyngd og hefur verið reynt að finna hann og fella en án árangurs.

Ovando er lítill og vinsæll ferðamanna- og útilegustaður sem var gerður frægur í myndinni „A River Runs Through It“ frá 1992 eftir Robert Redford, með Brad Pitt í aðalhlutverki.

AP fréttaveitan segir um þúsund hjólreiðamenn fara í gegnum bæinn á ári hverju auk annarra ferðamanna og margir tjaldi þar.

Samferðamenn Lokan segja að þau hafi vaknað við björninn um klukkan þrjú, aðfaranótt þriðjudagsins. Hann hafi komið á tjaldsvæðið en ráfað fljótt á brott. Þau fjarlægðu þá öll matvæli úr tjöldum þeirra og fóru aftur að sofa.

Skömmu eftir klukkan fjögur um nóttin barst fógeta Ovando tilkynning um að björn hefði ráðist á konu á tjaldsvæðinu. Aðrir gestir þar urðu varir við árásina og notuðu sérstakan bjarnarúða til að reka björninn á brott.

Síðan þá hefur bjarndýrsins verið leitað úr lofti og á jörðu niðri, auk þess sem gildrur hafa verið lagðar. Þrátt fyrir það hefur dýrið ekki fundist en búið er að finna lífsýni úr birninum sem hægt yrði að bara saman við birni sem enduðu í gildrum en veiðiverðir telja sig geta þekkt björninn frá upptökum úr öryggismyndavélum.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.