Innlent

Gosið í dvala í sólarhring í lengsta hléi frá upphafi

Kristján Már Unnarsson skrifar
Eldgígurinn í Fagradalsfjalli í kvöld.
Eldgígurinn í Fagradalsfjalli í kvöld. Vefmyndavél Vísis/Skjáskot

Enginn jarðeldur hefur sést á yfirborði í gígnum í Fagradalsfjalli í sólarhring. Þetta er lengsta goshlé frá upphafi eldgossins í Geldingadölum þann 19. mars síðastliðinn.

Samkvæmt óróariti Veðurstofu Íslands hætti gosórói skyndilega laust fyrir klukkan ellefu í gærkvöldi. Þó mátti sjá glitta í rauðglóandi bjarma í gígnum skömmu eftir miðnætti en eftir það virðist hann hafa lagst í dvala. Engin kvika hefur sést í gígnum á vefmyndavélum síðan þá.

Órarit Veðurstofunnar sýnir gosóróa undanfarna tíu sólarhringa. Goshléin sjást þar sem bláa línan fer niður fyrir 2000 á skalanum.Veðurstofa Íslands

Jarðvísindamenn segja að greinileg eðlisbreyting hafi orðið á gosinu þann 23. júni en fram að því hafði gangur þess verið óvenju jafn og stöðugur. Fyrsta goshléð varð fyrir níu sólarhringum, þann 27. júní, en varði aðeins í um hálftíma. Kvöldið eftir, þann 28. júní, virðist gosið hafa legið niðri í nokkrar klukkustundir.

Tvö lengri goshlé, sem vörðu hvort um sig í um það bil sextán klukkustundir, fylgdu svo á föstudag og sunnudag. Gosið hefur til þessa jafnharðan tekið sig upp aftur og náð fyrri styrk.

Þegar rýnt er í óróann síðastliðinn sólarhring virtist lengi vel framan af degi sem hann færi jafnt og þétt vaxandi. Um kvöldmatarleytið hættu línurnar að fara upp á við og hafa í kvöld fremur verið að síga niður á við.

Hér má sjá eldgígínn í beinni útsendingu á vefmyndavél Vísis:


Tengdar fréttir

Eldgígurinn lagðist í dvala í gærkvöldi

Gosvirkni á yfirborði í eldgígnum í Fagradalsfjalli hætti skyndilega um ellefuleytið í gærkvöldi. Þó mátti sjá örlítið í rauðglóandi glóð skömmu eftir miðnætti en eftir það virðist gígurinn hafa lagst í dvala. Engin kvika hefur sést í gígnum á vefmyndavélum í morgun.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×