Á Orkumótinu keppir 6. flokkur karla í fótbolta og á því voru um 1000 þátttakendur samkvæmt heimasíðu mótsins.
Mótið er risavaxið í augum þeirra sem taka þátt; sannkallað stórmót. Þetta er mótið sem enginn vill missa af, ekki nokkur maður, segir Gaupi um stórmótið í Eyjum.
Gaupi spjallaði við mann og annan á mótinu, bæði leikmenn, foreldra, þjálfara og skipuleggjendur, og þáttinn allan má sjá hér að neðan.
Fyrrum landsliðsmaðurinn Gunnleifur Gunnleifsson var á meðal þeirra sem Gaupi hafði upp á. Gunnleifur þjálfaði lið Breiðabliks á mótinu en hann lék með KR, HK og Breiðabliki í efstu deild hér á landi auk þess að spila fyrir landslið Íslands.
Hann rifjaði upp þegar Brynjar Björn Gunnarsson, fyrrum landsliðsmaður og þjálfari karlaliðs HK, skoraði á hann á hans fyrsta Orkumóti, sem þá hét Tommamótið, á sínum tíma. Þá talaði Gunnleifur um mikilvægi þess að drengirnir sem þarna spila fá að upplifa alls kyns tilfinningar, bæði góðar og slæmar.
Gaupi hitti þá á stráka úr Víkingi sem höfðu sungið og öskrað sig hása á mótinu, Fylkismenn sem voru stoltir af 9-1 sigri, og marga fleiri efnilega knattspyrnumenn.
Arnar Þór Viðarsson, landsliðsþjálfari karla í fótbolta, lét sig þá ekki vanta og talaði um mikilvægi þess að fá upplýsingar frá foreldrum um starf klúbbanna.
Þáttinn í heild sinni má sjá að ofan.