Innlent

Konur sendar að fæða á Skagann vegna plássleysis

Nadine Guðrún Yaghi skrifar
Hulda Hjartardóttir, yfirlæknir á fæðingardeild Landspítalans.
Hulda Hjartardóttir, yfirlæknir á fæðingardeild Landspítalans.

Mikið álag hefur verið á fæðingardeild Landspítalans síðustu vikur en gert er ráð fyrir metfjölda í fæðingum í sumar. Vegna plássleysis hafa konur verið beðnar um að fæða á Akranesi að sögn yfirlæknis.

Eins og fréttastofa greindi frá í maí stefnir í metár í fæðingum á Íslandi. Gert er ráð fyrir að 5000 börn fæðist í ár, sem eru 500 fleiri en í fyrra. Mikið aukning hefur orðið í þjónustu á Landspítala vegna þessa að sögn Huldu Hjartardóttur, yfirlæknis fæðingaþjónustu á Landspítalanum.

„Það hafa komið álagstoppar núna nýlega sem var við að búast því það var búið að spá fleiri fæðingum núna í sumar en oft áður,“ segir Hulda. Þannig hafi verið nokkuð mikið álag á fæðingardeildinni.

„Það lýsir sér þannig að það getur verið erfitt að koma konum fyrir á fæðingardeildinni, af því það er ekki sérstaklega mikið pláss, og svo getur líka verið að okkur vanti starfsfólks og þá þarf að kalla út meira fólk og það er alltaf erfiðara á sumrin,“ segir Hulda og bætir við að starfsfólk sé í sumarleyfum og því oft ekki í bænum.

Á síðustu vikum hafi því verið brugðið á það ráð í nokkur skipti að leita til nágrannasjúkrahúsa.

„Til dæmis til Akraness, sem er svipuð fæðingardeild og okkar, og stungið upp á því við konur eftir að það er búið að ræða við þær og fara yfir áhættuþætti og sjá hvort það sé eitthvað sem mælir á móti því, að sjá hvort það sé möguleiki hvort það myndi henta þeim að fæða þar. Þá erum við auðvitað að hugsa um að reyna fá sem besta umönnun fyrir konuna,“ segir Hulda.

Sem fyrr segir verður 2021 að öllum líkindum metár í fæðingum á Íslandi.

Þetta eru þá Covid-börnin ? „Já, það má alveg kalla þau það,“ segir Hulda og hlær.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×