Innlent

Vara við gosmóðunni sem greinist ekki í mælingum

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Svona var útsýnið á Suðurlandsbraut 10 um klukkan 11 í morgun.
Svona var útsýnið á Suðurlandsbraut 10 um klukkan 11 í morgun. Vísir/Óttar

Móðan sem liggur yfir höfuðborgarsvæðinu og hefur gert frá því snemma í morgun er gosmóða frá eldgosinu í Fagradalsfjalli í bland við þokuloft. Gosmóðan inniheldur mengun sem hefur náð að umbreytast og greinist hún því ekki með hefðbundnum mælingum á brennisteinsdíoxíði (SO2).

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Reykjavíkurborg sem vísar í upplýsingar Veðurstofu Íslands.

Gosmóðan eða blámóða (Volcanic smog) er loftmengun sem verður til þegar SO2, önnur gös og agnir hvarfast við súrefni og raka með tilstuðlan sólarljóssins. Hún hefur einkennandi blágráan lit sem myndast er sólarljósið brotnar á ögnum/úða.

Gosmóða getur orsakað slen, höfuðverk, ertingu í augum og hálsi auk flensueinkenna. Þeir sem eru viðkvæmir fyrir í öndunarfærum, og börn ættu að forðast útivist í lengri tíma og takmarka áreynslu. Þeir sem eru síður viðkvæmir geta einnig fundið fyrir einkennum.

Almennar ráðleggingar varðandi gasmengun eru eftirfarandi:

  • Lungna og hjartasjúklingar hafi sín lyf tiltæk
  • Andið sem mest með nefi og forðast líkamlega áreynslu utandyra í mikill mengun því það dregur úr þeim styrk sem kemst niður í lungu.
  • Dvöl innanhúss með lokaða glugga og slökkt á loftræstingu veitir verulega vörn fyrir menguninni.
  • Athugið að rykgrímur veita enga vörn gegn gasmengun
  • Ráðstafanir til varnar SO2 og annari gosmengun mengun innandyra
  • Lokaðu gluggum og minnkaðu umgengni um útidyr.
  • Hækkaðu hitastigið í húsinu.
  • Loftaðu út um leið og loftgæði batna utandyra.

Auk ofangreindra upplýsinga má finna ráðleggingar vegna heilsufarslegra áhrifa að völdum loftmengunar á síðu landlæknis

Þar má einnig finna uppfærðan leiðbeiningabækling fyrir almenning Hætta á heilsutjóni vegna loftmengunar frá eldgosum og er hann aðgengilegur á íslensku, ensku og pólsku.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×