Árásarmaðurinn er 24 ára gamall sómalskur innflytjandi sem er talinn eiga við geðræn vandamál að stríða. Honum hafði nýlega verið gert að sæta meðferð á geðdeild og mögulegt er talið að hann hafi aðhyllst öfgakennda íslamstrú. Hann kom fyrir dómara í dag, sakaður um þrjú morð og sex tilraunir til manndráps.
Joachim Herrmann, innanríkisráðherra Bæjaralands, segir ekki ljóst hvort að þeir sem særðust mest komist lífs af.
Breska ríkisútvarpið BBC segir að maðurinn hafi gripið hníf í búsáhaldahluta stórverslunar og ráðist á fólk inni í henni. Þar varð hann sölukonu og tveimur öðrum konum að bana. Hann hjó einnig til fólks með hnífnum fyrir utan verslunina.
Lögreglumenn skutu árásarmanninn í lærið og náðu þá að yfirbuga hann.