Innlent

Hvít­rúss­neskur stjórnar­and­stöðug­leið­togi sækir Ís­land heim

Kjartan Kjartansson skrifar
Svetlana Tsikhanouskaja er væntanleg til Íslands í byrjun júlí.
Svetlana Tsikhanouskaja er væntanleg til Íslands í byrjun júlí. AP/Francisco Seco

Svetlana Tsikhanouskaja, einn leiðtoga hvítrússnesku stjórnarandstöðunnar, heimsækir Ísland í næstu viku. Hún fundar meðal annars með forsætisráðherra, forseta Alþingis og rektor Háskóla Íslands.

Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, bauð Tsikhanouskaju til Íslands, að því er segir í tísti þar sem hún tilkynnir um heimsóknina. Hún verður á landinu dagana 1.-4. júlí.

„Ísland er dyggur stuðningsaðili lýðræðislegra breytinga í Hvíta-Rússlandi. Þeta er annað landið utan Evrópusambandsins þangað sem ég fer í starfsheimsókn,“ tísti hún í kvöld.

Tsikhanouskaja bauð sig fram til forseta eftir að Siarhei Tsikhanouski, eiginmaður hennar sem hugði á framboð, var fangelsaður í maí í fyrra. Hún flúði land undir þrýstingu ríkisstjórnar Alexanders Lúkasjenka, forseta, daginn eftir forsetakosningarnar í ágúst sem stjórnarandstaðan í landinu fullyrðir að hafi verið sviksamlegar.

Síðan þá hefur Tsikhanouskaja búið í útlegð í Litháen með börnum sínum. Þaðan hefur hún unnið að því að afla stuðnings Evrópuríkja gegn veldi Lúkasjenka.

Mikil mótmæli brutust út í Hvíta-Rússlandi eftir að Lúkasjenka lýsti yfir endurkjöri. Öryggissveitir hans börðu þau niður af mikilli hörku.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×