Fótbolti

Gaupi á Norðurálsmótinu: Draugasögur Heimis, hressir fótboltastrákar og hrifinn landsliðsfyrirliði

Sindri Sverrisson skrifar
Strákarnir í Vestra voru hressir á Norðurálsmótinu.
Strákarnir í Vestra voru hressir á Norðurálsmótinu. Stöð 2 Sport

„Hérna hafa allar stærstu stjörnur Íslands byrjað í boltanum,“ segir Guðjón Guðmundsson, Gaupi, um Norðurálsmótið á Akranesi. Gaupi var að sjálfsögðu á staðnum og fylgdist með krökkum frá 34 félögum njóta sín í botn á mótinu.

Á Norðurálsmótinu keppa krakkar í 7. og 8. flokki, frá 34 félögum, og mótið í ár var það stærsta sem haldið hefur verið á Akranesi.

Gaupi spjallaði við mann og annan á mótinu, bæði leikmenn, foreldra, þjálfara og skipuleggjendur, og þáttinn allan má sjá hér að neðan.

Klippa: Sumarmótin 2021: Norðurálsmótið

Á meðal þeirra sem Gaupi ræddi við var Eyjamaðurinn Andri Ólafsson, mættur með peyja úr ÍBV sem hann stýrði á mótinu. Andri rifjaði upp að hann hefði fjórum sinnum mætt á mótið á Akranesi og notið þess í botn, og eftirminnilegar voru draugasögurnar sem þjálfarinn Heimir Hallgrímsson, síðar EM- og HM-fari, sagði.

Landsliðsmaðurinn Ísak Bergmann Jóhannesson var mættur á sínar heimaslóðir og fylgdist meðal annars með frænda sínum. Hann rifjaði upp góðar minningar af mótinu. „Þetta var heimsmeistaramótið fyrir mann þegar maður var yngri,“ sagði Ísak.

Sonur Gunnars Heiðars Þorvaldssonar var sömuleiðis einn viðmælenda Gaupa, staðráðinn í að verða föðurbetrungur. Gaupi ræddi við fullt af öðrum hressum fótboltastrákum og svo sjálfan landsliðsfyrirliðann Aron Einar Gunnarsson sem var hrifinn af tæknilegri kunnáttu strákanna, og af því hve allir virtust njóta sín vel.

Þáttinn má sjá í heild sinni hér að ofan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×