Innlent

Segir að sótt­kvíin muni valda ferða­þjónustunni vand­ræðum í sumar

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar.
Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar. Vísir/Vilhelm

Áfram þurfa ferðamenn sem ekki geta framvísað gildum vottorðum um fyrri sýkingu eða bólusetningu gegn covid19 að sæta skimun og fimm daga sóttkví við komuna til landsins. Framkvæmdastjóri samtaka ferðaþjónustunnar fagnar afléttingum en segir að sóttkvíin muni valda ferðaþjónustunni vandræðum í sumar.

Þann 1. júlí verður sýnatökum hætt hjá þeim sem framvísa gildum vottorðum um bólusetningu með bóluefnum sem Lyfjastofnun Evrópu og Alþjóðaheilbrigðisstofnunin hafa viðurkennt við komuna til landsins og sýnatöku verður jafnframt hætt hjá börnum fædd 2005 eða síðar. 

Þeir sem ekki geta framvísað gildum vottorðum um bólusetningu gegn Covid19 eða fyrri sýkingu af völdum sjúkdómsins þurfa áfram að framvísa neikvæðu PCR vottorði á landamærum, undirgangast skimun við komuna til landsins , sæta fimm daga sóttkví og seinni skimun að henni lokinni. Þessar takmarkanir gilda til 15. ágúst.

Sóttkvíin valdi vandræðum

Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar segir að sóttkvíin muni valda ferðaþjónustunni vandræðum í sumar.

„Þetta hefur töluverð óþægileg áhrif, þessi sóttkvíartenging, sérstaklega fyrir hópa frá Evrópu þar sem að staða bólusetninga er mjög mismunandi,“ sagði Jóhannes Þór Skúlason.

Hann hefði gjarnan viljað sóttkvínna lagða af fyrr en þann 15. ágúst.

„Ég hefði gjarnan viljað sjá það um miðjan júlí eða fyrsta ágúst, en miðað við gildistímann á þessari reglugerð þá lítur út fyrir að það verði ekki fyrr en um miðjan ágúst sem okkur þykir náttúrulega aðeins súrara í broti en ef þetta hefði komið fyrr. Það mun valda okkur vanda.“

Einfaldara að taka á móti ferðamönnum

Heilt yfir segist hann þó ánægður með afléttingar innanlands.

„Það er náttúrulega mjög ánægjulegt fyrir okkur í ferðaþjónustunni að það sé búið að ákveða að hætta að skima bólusetta og þá sem eru með mótefnavottorð. Það mun einfalda alla hluti í móttöku á ferðamönnum, sérstaklega þeim sem eru að koma í styttri ferðir og síðan vonumst við til að það verði létt enn meira á þessu þegar staðan verður orðin enn betri núna í ágúst þegar þessi reglugerð rennur sitt skeið,“ sagði Jóhannes Þór Skúlason. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×