Fótbolti

Sjáðu ótrúlegt mark Víðis af 80 metra færi

Sindri Sverrisson skrifar
Leikmenn KFS fagna markinu á Hásteinsvelli sem endanlega tryggði þeim sæti í 16-liða úrslitunum.
Leikmenn KFS fagna markinu á Hásteinsvelli sem endanlega tryggði þeim sæti í 16-liða úrslitunum. Stöð 2 Sport

Víðir Þorvarðarson skoraði magnað mark af um 80 metra færi fyrir KFS þegar liðið sló út Víking Ólafsvík í Mjólkurbikarnum í fótbolta.

KFS í Vestmannaeyjum verður eina liðið úr 3. deild sem verður í skálinni þegar dregið verður í 16-liða úrslit Mjólkurbikarsins á mánudaginn. Liðið sló Víking Ólafsvík út með 4-2 sigri í Eyjum. Markið hans Víðis má sjá hér að neðan.

Klippa: Mjólkurbikarmörkin: Magnað mark Víðis

Mörkin úr leiknum voru líkt og önnur mörk í 32-liða úrslitunum sýnd í Mjólkurbikarmörkunum á Stöð 2 Sport 4 í gærkvöld. Markið hans Víðis, sem er fyrrverandi fyrirliði ÍBV, stóð að sjálfsögðu upp úr en það skoraði hann í uppbótartíma. Víkingar voru þá komnir með allt sitt lið fram og þar með talinn markvörðinn.

Henry Birgir Gunnarsson og Þorkell Máni Pétursson voru sammála um að markið gerði tilkall til Puskas-verðlaunanna, sem flottasta mark ársins í fótboltaheiminum, en Máni benti á að áður en markið yrði sent inn til FIFA væri kannski best að lækka í vindhljóðinu sem heyrðist. Vindurinn hjálpaði Víði vissulega með kraftinn í skotinu, en nákvæmnin þarf að vera ansi mikil til að skora yfir allan völlinn líkt og hann gerði.

„Þetta er geggjað. Þetta er mark bikarkeppninnar. Það er komið núna,“ sagði Máni. „Það er ekki hægt að toppa þetta,“ tók Henry undir.


Mjólkurbikarinn er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Mjólkurbikarinn er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×