Erlent

Huga að því að refsa Rússum vegna Navalní

Kjartan Kjartansson skrifar
Biden og Pútín funduðu í Genf í síðustu viku. Þar varaði Biden við því að það hefði afleiðingar í för með sér ef eitthvað henti Alexei Navalní í fangelsinu í Rússlandi.
Biden og Pútín funduðu í Genf í síðustu viku. Þar varaði Biden við því að það hefði afleiðingar í för með sér ef eitthvað henti Alexei Navalní í fangelsinu í Rússlandi. Vísir/EPA

Bandaríkjastjórn leggur nú drög að frekari refsiaðgerðum gegn Rússlandi vegna taugaeiturstilræðisins gegn Alexei Navalní, eins helsta leiðtoga stjórnarandstöðunnar í landinu. Þetta segir þjóðaröryggisráðgjafi Joes Biden Bandaríkjaforseta innan við viku eftir leiðtogafund Biden og Vladímírs Pútín Rússlandsforseta.

Stjórn Biden lagði viðskiptaþvinganir á Rússland vegna tilræðisins og fangelsunar Navalní í apríl. Þær aðgerðir beindust þó ekki sérstaklega að Pútín eða ólígörkunum sem styðja veldi hans, að sögn New York Times.

Eitrað var fyrir Navalní með taugaeitrinu novitjok í Rússlandi í ágúst í fyrra. Að kröfu aðstandenda hans var hann fluttur í dái á sjúkrahús í Þýskalandi. Navalní komst af og ákvað að snúa aftur til heimalandsins í janúar. Þar var hann handtekinn við komuna, sakaður um að hafa rofið skilorð eldri dóms með því að gefa sig ekki reglulega fram við yfirvöld á meðan hann lá í dái og jafnaði sig á eitruninni í Þýskalandi.

Rússneskur dómstóll dæmdi Navalní í tveggja og hálfs árs fangelsi fyrir að rjúfa skilorð í febrúar. Síðan þá hefur stjórn Pútín reynt að ganga á milli bols og höfuðs á samtökum Navalní. Þau voru lýst ólögleg öfgasamtök fyrr í þessum mánuði en það þýðir að bandamenn Navalní geta ekki boðið sig fram í þingkosningum í haust. Fjöldi þeirra hefur jafnframt verið handtekinn eða sætt húsleit undanfarna mánuði.

Jake Sullivan, þjóðaröryggisráðgjafi Biden, sagði í viðtali gær að unnið væri að enn frekari viðskiptaþvingunum vegna meðferðar rússneskra stjórnvalda á Navalní. Hann gaf þó ekki upp innihald aðgerðanna eða hvenær þeim yrði komið á. Stjórnin vildi tryggja að aðgerðirnar beindust að réttu einstaklingunum.

„Þegar við gerum það leggjum við að frekari þvinganir varðandi efnavopn,“ sagði Sullivan við CNN-sjónvarpsstöðina.

Biden og Pútín funduðu í Sviss á miðvikudag og lýsti þeir honum báðir sem jákvæðum. Að fundi loknum sagði Biden blaðamönnum að hann hefði gert Pútín ljóst að hann mætti vænta afleiðinga ef Navalní létist í rússnesku fangelsi.


Tengdar fréttir

Sam­tök Naval­nís lýst ó­lög­leg öfga­sam­tök

Borgardómstóll í Moskvu féllst í dag á kröfu saksóknara um að lýsa samtök Alexeis Navalní, stjórnarandstöðuleiðtoga í Rússlandi, ólögleg öfgasamtök. Það hefur það í för með sér að meðlimir samtakanna mega ekki bjóða sig fram í þingkosningum í landinu í september.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×